«

»

Molar um málfar og miðla 1428

Molavin skrifaði (04.03.2014):,,Vegagerðin mokar ekki fjöllin milli Akureyrar og Egilsstaða í dag eins og til stóð….“ sagði í fjögur-fréttum RUV 4. mars. Enda er varla hægt að ætlast til slíks. Það hlýtur að nægja að moka fjallvegi.  –  Rétt. Molaskrifar þakkar ábendinguna.

 

Í frétt á bls. 2 í Fréttablaðinu (04.03.2014) um flug færeyska flugfélagsins Atlantic Airways til Reykjavíkur segir: Flugfélagið mun hætta notkun gamallar Fokker-vélar, einu vélarinnar sem hefur leyfi til lendingar í Reykjavík (svo!), í ágúst næstkomandi. Vélin sem hér um ræðir er ekki gömul Fokker – vél. Vélin er fjögurra hreyfla þota af gerðinni BAe146. Í fréttinni er Ásgeir Gunnarsson nefndur sem framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands. Molaskrifari vissi ekki betur en framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands héti Árni Gunnarsson. Alltaf betra að hafa hlutina rétta.

 

Í DV (04.03.2014) er auglýsing um áskriftartilboð. Þar er boðið upp á fría áskrift út febrúar. Gallinn er bara sá að auglýsingin birtist 4. mars. Þeir fylgjast ekki vel með tímanum sem settu þessa auglýsingu í blaðið.

 

Margar athugasemdir mætti gera við texta og málfar Kjartans Hreins Njálssonar sem fjallaði um Úkraínu í fréttum Stöðvar tvö á mánudagskvöld (03.03.2014).

Hann talaði um að róa öldurnar á Krímskaga. Betra hefði verið: Lægja öldurnar á Krímskaga.

Setja úrslitakost. Betra: Setja úrslitakosti.

Reisa brú. Betra: Byggja brú, gera brú.

Ákveðin merki á lofti um … Betra ákveðin teikn á lofti um…

Það sem kemur út úr Öryggisráðinu verður vafalaust neitað af Rússum. Betra: Rússar munu vafalaust beita neitunarvaldi gegn ákvörðun Öryggisráðsins. Enn eitt dæmi um þolmynd þar sem germynd væri betri.

 

Mjög fróðlegt og gott viðtal við Jón Ólafsson, prófessor, við Háskólann á Bifröst á Rás tvö á þriðjudagsmorgni (04.03.2014) þar sem hann fjallaði um ástandið í Úkraínu. Sennilega þekkir Jón betur til mála í þessum heimshluta en nokkur annar Íslendingur. Takk.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sammála, Eirný.

  2. Eirný Vals skrifar:

    Sæll Eiður,
    Á vef Morgunblaðsins segir
    Ebba hefur þekkt Pistorius náið frá árinu 2005

    http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/03/06/ebba_stydur_pistorius_i_rettarsal/

    Ég tel að það sé munur á að þekkja einhvern náið (vera í nánum kynnum við) eða þekkja einhvern vel.

  3. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Egill.

  4. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Ég rakst á þessa fyrirsögn á mbl.is í gær „Sparkaði með hné í andlit Hallbjörns“.
    Þetta er ekkert annað en hálfvitaháttur, ég tek svo sterkt til orða því ruglið í fjölmiðlum er orðið þvílíkt. Hvað verður næst ? “ Sparkaði hann ítrekað í andlitið með hnefanum“.
    Það er verðugt verkefni á næstunni að setjast niður eina kvöldstund með blað og blýant og skrifa niður það sem kemur frá þýðendum Stöðvar 2. Bæði er enskukunnáttu þeirra verulega ábótavant svo og almennri þekkingu t.d nú nýverið varð „admiral“ að hershöfðingi og „captain“ í landher að skipstjóra. Það er eins og þeir séu ekki alltaf að fylgjast með atburðarás í myndunum sem að þeir eru að þýða þannig að oft verður þetta mjög klúðurslegt. Nýlegt dæmi úr bandarískum gamanmyndaþætti. Maður og kona voru að rífast og konan segir „Vincent heel“ sem að í þessu tilviki þýðir komdu þér í burtu eða dragðu þig í hlé. Hinn skarpskyggni þýðandi komst að þessari niðurstöðu „Vincent hæll“ sem er að sjálfsögðu bara rugl.
    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>