«

»

Molar um málfar og miðla 1430

 

Molalesandi benti á þessa frétt á mbl.is (05.03.2014): http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/03/06/36_prosent_auking_a_hotelum_i_januar/

Hann segir: – Ég skildi ekki einu sinni hvað um var rætt ,,36% auking á hótelum“? Mér sýnist að þarna sé átt við fjölgun hótelgesta og fyrirsögnin átt að vera ,,Hótelgestum fjölgar um 36 prósent“. Molaskrifari þakkar réttmæta ábendingu.

 

Ósveigjanleiki Norðmanna er um að kenna að ekki náðust sögulegar sættir í makríldeilunni, las Logi Bergmann Eiðsson í fréttayfirliti á Stöð tvö (06.03.2014). Hefði átt að vera: Ósveigjanleika Norðmanna er um að kenna að ekki ….

 

Líkamsárásin á Hallbjörn sem varð í febrúar í fyrra, sagði Þórhildur Ólafsdóttir í fréttum Ríkissjónvarps (06.03.2014). Miður gott orðalag. Árásin varð ekki. Árásin var gerð.

 

Sumar auglýsingastofur valda spjöllum á íslensku máli, – meðal annars með óþarfa slettum. Í Morgunblaðinu á föstudag ( 07.03.2014) var bílaauglýsing frá BL. Yfirskrift auglýsingarinnar var: Það geta ekki allir verið gordjöss. Orðið gordjöss er ekki íslenska. Það er íslensk framburðarskrift á enska orðinu gorgeous sem þýðir, dásamlegur, dásamlega fagur. Þetta er óþörf og ljótt sletta. Ekkert dásamlegt við hana. Á baksíðu Morgunblaðsins á laugardag (08.03.2014) er svo haft eftir  Páli Óskari Hálmtýssyni, söngvara:,,… húsið skreytingarnar,tónlistin, ljósin og dansararnir gordjöss”. Ja, hérna!

 

Er að … orðalagið heyrist æ oftar. Sagt var í fréttum Stöðvar tvö (07.03.2014): Tiger Woods er ekki að spila vel … Eins hefði mátt segja: Tiger Woods spilar ekki vel.

 

Steini sendi eftirfarandi (07.03.2014) : ,,Í frétt mbl. (7.3.) er leikskólamál viðhaft, eða slöpp þýðing: ,,Allt í einu áttaði fólkið sig á því að það var komið í djúpt vatn og sterka strauma.“
Þarna grunar mig að deep water sé þýtt beint sem djúpt vatn. Sem er ei boðlegt. Tillaga til úrbóta: „…sundmennina bar út á mikið dýpi og höfðu ekki við sjávarstraumum þótt knálega syntu…“
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/03/07/bjorgun_i_sjo_nadist_a_myndskeid/

Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>