«

»

Molar um málfar og miðla 1439

Molavin skrifaði (21.03.2014):,, Úr mbl.is-frétt 21.3: ,,Þýfið hefur ekki fundist, en maðurinn hafði á brott fjármuni úr sjóðsvél.“ Hér étur blaðamaður upp orðrétt stofnanamál úr lögreglutilkynningu. Orðið ,,sjóðsvél“ er aldrei notað í daglegu tali. Þar er átt við peningakassa í afgreiðslu. Það ágæta orð þótti ekki nógu fínt þegar lög voru sett um upptöku virðisaukaskatts og því var notað í staðinn þessi tilbúningur; sjóðsvél, sem átti að þýða peningakassa með búnaði til skráningar með vsk. númeri.”. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Fyrrverandi fréttamaður skrifaði Molum: ,, Eiður, ég sá í Fréttablaðinu (18.03.2014) að N1 var að auglýsa eftir starfsmönnum og tekið var fram að þeir ættu að vera ,,söludrifnir“. Ætli þetta hafi ekki átt að vera ,,bensíndrifnir“, svona miðað við eðli fyrirtækisins? Góð ábending! Þakka bréfið.

 

Það eru stór og mikil mál að detta hér inn, sagði Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokks í umræðum á Alþingi um skýrslu utanríkisráðherra (20.03.2014) Þingmaðurinn átti við að á næstunni yrðu lögð fram á Alþingi mikilvæg mál. En ósköp finnst Molaskrifara hvimleitt , þegar þingmenn segja hvað eftir annað: Sjálfur tel ég, eða sjálfur er ég þeirrar skoðunar. Þessi ágæti þingmaður ætti að venja sig af þessum kæk.

 

Úrslitin voru samkvæmt bókinni, sagði íþróttafréttamaður Stöðvar tvö (21.03.2014). Hvaða bók?

 

Í Spegli Ríkissjónvarpsins (21.03.2014) talaði Sigrún Davíðsdóttir um eftirlaunatengdar fjármálaafurðir. Sjálfsagt vita allir hvað hún átti við, en Molaskrifari er ekki í þeirra hópi.

 

Í prentaðri dagskrá Ríkissjónvarps var Sigmar Guðmundsson sagður umsjónarmaður Útsvars ásamt Þóru Arnórsdóttur. Í inngangi að Útsvari (21.03.2014) var Sigmar Guðmundsson kynntur sem umsjónarmaður. Svo kom í ljós, þegar þátturinn hófst að Gísli Marteinn Baldursson var umsjónarmaður þáttarins ásamt Þóru Arnórsdóttur. Sigmar var sagður í fæðingarorlofi. Ætti það ekki í þessu tilviki að kallast feðraorlof? Kom þetta orlof Sigmars bara eins og þruma úr heiðskíru lofti? Gísli Marteinn er með vikulegan þátt í Ríkissjónvarpinu. Dugar það ekki? Hann komst reyndar alveg prýðilega frá sínu í Útsvarinu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>