«

»

Molar um málfar og miðla 1454

Frá Molavin:,, Í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag, (17. 04.2014) sagði í frétt um ferjuslys að leit stæði yfir að ,,eftirlifendum.“ Hér fer fréttamaður rangt með hugtök. Rétt er að leit stóð yfir að farþegum (skólabörnum) sem kynnu að hafa komizt lífs af. En ,,eftirlifendur” eru aðstandendur hinna látnu. Í morgunútvarpi Rásar 2 var í gær, 16. apríl, pistill um málefni brezks ráðherra, sem hafði sagt af sér vegna fjármálamisferlis. Lesari sagði hana hafa skarað ,,eld að eigin könnu.“ Margir þekkja myndlíkinguna að ,,skara eld að sinni köku.“ Það hljóta að vera til orðabækur og handbækur á þessum miðlum. Það þarf að kenna fólki að nota þær.” Satt segirðu, Molvin. Nóg er til af handbókum og orðabókum.  Svo er líka hægt að spyrja. Þakka bréfið.

 

Stundum heyrist orðalagið að koma á móts við. Þannig var til dæmis komist að orði í fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (16.04.2014). Molaskrifari er vanur því að talað sé um að koma til móts við, – að verða við óskum einhvers eða einhverra að hluta eða öllu leyti. Kannski er þetta algengt orðalag, þótt það sé ekki Molaskrifara tamt.

 

Í hádegisfréttum á föstudaginn langa (18.04.2014) var sagt frá mannskæðu snjóflóði í hlíðum Everest fjalls, hæsta fjalls í heimi. Það var hinsvegar ekki nægilega vel orðað, þegar sagt var undir lok fréttarinnar að þetta væri mannskæðasta slysið á tindi fjallsins. Slysið var ekki á tindinum. Það var miklu neðan; í fjallshlíðinni.

 

Á miðvikudag (16.04.2014) auglýsti fyrirtækið Heimkaup í tölvupósti til viðskiptavina, að það ætlaði að afnema virðisaukaskatt af snyrtivörum: Við afnemum virðisaukaskattinn af snyrtivörum í dag í flokknum Heilsa og útlit. Þetta er rangt. Það getur ekkert fyrirtæki afnumið virðisaukaskatt, sem ákveðinn er með lögum sem Alþingi hefur samþykkt. Fyrirtæki geta hinsvegar veitt afslátt sem skattinum nemur.

 

Eins og hér hefur áður verið sagt þarf Þóra Arnórsdóttur enga hjálparkokka í Útsvari ( 16.04.2014).. Hið fræga ljóð heitir ekki Raven, eins og hjálparmaður hennar sagði. Það heitir The Raven. Á þessu er munur. Ljóðið orti Edgar Allan Poe. Líklega hans þekktasta verk. Fleira fór þarna í hálfgerðum handaskolum.

 

Margt var gott og meira en bitastætt á boðstólum í sjónvarpi bænadagana. Nefni af handahófi úr Ríkissjónvarpi Þriggja stjörnu tónleika í Berlín, Drauminn um veginn (Erlendur Sveinsson á  þakkir skildar. Óbrigðul smekkvísi hans einkenndi þættina) og kvikmyndina Shawshank-fangelsið. Minnist þess ekki að Ríkissjónvarpið hafi áður sýnt kvikmynd sem IMDb gefur einkunnina 9,3! Ein besta kvikmynd sem Molaskrifari hefur lengi séð.   Á Stöð tvö, sem Molaskrifari hefur lítinn aðgang að, sá hann frábæra minningartónleika um söngkonuna Ellý Vilhjálms. Ein okkar besta dægurlagasöngkona. Hún gerði allt vel.

 

Gleðilega páska !

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

1 athugasemd

Ekkert ping ennþá

  1. spritti skrifar:

    Kannski voru eftirlifendur að synda þarna hjá ferjunni. Gleðilega páska.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>