«

»

Molar um málfar og miðla 1453

Í fréttum Stöðvar tvö var um síðastliðna helgi sagt frá skógareldunum í Síle. Talað var um kröftuga vinda,sem gerðu að verkum að eldarnir breiddust hratt út. Eðlilegra hefði verið að tala um hvassviðri eða rok. Það er dálítill enskukeimur af því að tala um kröftuga vinda.

 

Fréttamaður Stöðvar tvö (14.04.2014) sagði í frétt af atburðum í Úkraínu: ,, .. en það neita rússnesk yfirvöld alfarið fyrir”. Slæmt orðalag. Enginn yfirlestur. Einfaldara og betra: En því neita rússnesk yfirvöld alfarið.

 

Í frétt um lögreglumál á mbl.is (15.04.2014) segir: ,Síðan var nokkuð um hávaðaköll á öllu höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Iðulega kom áfengi við hönd og reyndist húsráðendum erfitt að hafa stjórn á hljómstyrk tónlistartækjanna.” Hér er greinilega ruglað saman tveimur orðatiltækjum.: … iðulega hafði áfengi verið haft um hönd , … iðulega kom áfengi við sögu.

 

Fréttamaður Ríkissjónvarps (14.04.2014) sagði frá skógareldum í Síle og að slökkviliðsmenn berðust enn við að ná niðurlögum eldsins. Hér hefði einhver þurft að lesa handrit fréttarinnar yfir áður en fréttin var lesin fyrir okkur. Við tölum ekki um að ná niðurlögum elds. heldur ráða niðurlögum elds, slökkva eld. Einnig mætti tala um að ná tökum á eldinum, hemja útbreiðslu hans.

 

Við erum að tala um relative poverty, sagði talsmaður Barnaheilla, upp á ensku sem rætt var við um fátækt meðal barna í fréttum Ríkisútvarps (15.04.2014). Ekki heyrði Molaskrifari að þetta væri skýrt frekar. Líklega var átt við fátækt með hliðsjón af almennri velmegun í tilteknu landi.

 

Í fréttayfirliti kvöldfrétta Ríkisútvarpsins (16.04.2014) var enn einu sinni ruglað saman því að kjósa og að greiða atkvæði um eitthvað. Í fréttatímanum var þetta hinsvegar rétt. Það þarf líka að vanda fréttayfirlitið. Rétt eins og fyrirsagnir í blöðum og á netinu.

 

Rannsóknarlögreglan Tom Thorne …., segir niðursoðna konuröddin, sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins, aftur og aftur. Hversvegna leiðréttir enginn í Efstaleitinu þessa texta sem niðursoðna röddin er látin lesa yfir okkur? Rannsóknarlögreglumaðurinn Tom Thorne …

Rafn vitnar í frétt á visir.is (16.04.2014) þar sem segir: Heimilt að vera á nagladekkjum í vissum aðstæðum. Hann spyr: Hvað er að vera í aðstæðum? Ekki er nema von að spurt sé! Molaskrifari þakkar ábendinguna. http://www.visir.is/heimilt-ad-vera-a-nagladekkjum-i-vissum-adstaedum/article/2014140419309

Þótt Molaskrifari sé ekki 100% sammála ákvörðunum útvarpsstjóra um ráðningu yfirmanna í Ríkisútvarpinu (skoðun hans skiptir reyndar ekki máli í þessu sambandi), sem greint var frá á miðvikudag (16.04.2014) er hann samt á því að útvarpsstjóri hafi staðist þetta próf með prýði. Hér held ég að hafi tekist vel til. Öllum  þeim, sem taka nú  við ábyrgðarstöðum,er   árnað heilla í störfum.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>