«

»

Molar um málfar og miðla 1452

Hnökrar voru á málfari í fréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (11.04.2014). Þar var sagt: ,, … hvort Fjármálaeftirlitið hefði gengið á eftir sparisjóðunum með þetta”. Rétt hefði verið að segja til dæmis: Hvort Fjármálaeftirlitið hefði gengið eftir því við sparisjóðina að ….

Einnig sagði fréttamaður: ,, … hversu stuttan tíma þingmönnum var gefinn til …” Betra hefði verið: Hve skamman, eða stuttan, tíma þingmenn fengu til…..

 

Áskell vakti athygli á eftirandi á mbl.is (13.04.2014): , Hluti af íslensku makrílveiðiskipunum liggur nú bundinn við bryggju í Þórshöfn í Færeyjum vegna brælu en mikið hvassviðri skekur miðin”. – segir á mbl.is. Áskell segir: ,,Að hvassviðri skeki miðin hljómar sérkennilega. Blaðamaðurinn hefði átt að segja punkt á eftir ,,brælu“. Það hefði dugað. Gamlir sjómenn, sem rætt var við, höfðu ekki áður heyrt ,,hvassviðri skekur miðin.“ Molaskrifari þakkar ábendinguna. Þetta var reyndar lagfært síðar.

 

Í naumt skömmtuðum erlendum fréttum Stöðvar tvö á laugardagskvöld (12.04.2014) var sagt frá mengun af völdum olíuleka í kínverskri borg. Okkur var sagt að unnið væri að því að laga lekann. Var hann bilaður? Betra hefði verið að segja að unnið væri að því að stöðva lekann.

 

Molalesandi benti á eftirfarandi af mbl.is ,,… ekki kemur fram í hvern aðstoðarflugmaðurinn hafi verið að reyna ná sambandi við ”. Hér hefði átt að standa:,,…ekki kemur fram hvern aðstoðarflugmaðurinn var að reyna að ná sambandi við”. Eftir ábendingu þessa ágæta Molalesanda til mbl.is var þetta lagfært, – síðar,- að hluta.

 

Á visir.is (12.04.2014) var fyrirsögnin: Fundu hljóðmerkin aftur á Indlandshafi. Hér hefði verið eðlilegra að tala um að heyra hljóðmerkin á ný, fremur en að finna þau.

 

Birgitta Jónsdóttir alþingismaður sagði í viðtali við Ríkissjónvarpið (12.04.2014) að henni sýndist þingið hefði ekki fattað upp á …  Barnamál í opinberri umræðu kemur ekki aðeins frá fréttabörnum. Í sama fréttatíma sagði fréttamaður að hylmt hefði verið yfir ásökunum! Talað er um að hylma yfir eitthvað, halda e-u leyndu.

Hraðfréttamaður Ríkissjónvarps sagði okkur, að Eyþór hefði ekki sigrað keppnina. (12.04.2014). Fleiri ambögur voru í þessum stutta þætti. Hversvegna sóar Ríkissjónvarpið takmörkuðu dagskrárfé í þessa vitleysu?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>