«

»

Molar um málfar og miðla 1451

Molavin skrifaði (10.04.2014): Af vef mbl.is (10.4.14): ,,Alls slösuðust tólf, þar af tveir alvarlega þegar bifreið ók inn í leikskóla í bænum Orlando í Bandaríkjunum.“ – ,,Hér er óupplýst fréttabarn að verki. Orlando er stór borg en ekki bær, og hún er í ríkinu Flórída, sem er hluti Bandaríkjanna. Fyrir óvönduð vinnubrögð við fréttaskrif er Morgunblaðið búið að glata virðingu sinni”. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Batnandi mönnum er best …. Seinni fréttum Ríkissjónvarps seinkaði um fimm mínútur á fimmtudagskvöld (10.04.2014). Seinkunin var tilkynnt með skjáborða og Bogi baðst afsökunar á seinkuninni í upphafi fréttatímans. Svona eiga sýslumenn að vera, eins og þar stendur.

 

Svandís hreiðrar um sig í hólmanum, er góð fyrirsögn á mbl.is (10.04.2014) um álftina Svandísi sem er að gera sér hreiður í hólmanum á Bakkatjörn. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/04/10/svandis_hreidar_um_sig_i_holmanum/

 

Fréttabörn virðast ekki skilja muninn á því að kjósa og að greiða atkvæði um eitthvað. Í fréttum Ríkisútvarpsins klukkan þrjú á föstudegi (11.04.2014) var sagt að flugvallastarfsmenn mundu kjósa um aðgerðir. Þeir ætla að greiða atkvæði um verkfallsaðgerðir.

Á Alþingi eru greidd atkvæði um tillögur og lagafrumvörp en kosið í ráð og nefndir.

 

Hversvegna tala íþróttafréttamenn í tíma og ótíma um pakka, íþróttapakka?  Fulla pakka, sneisafulla pakka. Hvernig geta pakkar verið sneisafullir? Aftur og aftur heyrum við þetta þegar verið er að tala um eða kynna íþróttaþætti, íþróttafréttir eða pistla? Molaskrifara finnst þetta heldur hvimleitt orðalag.

 

Af mbl.is (09.04.2014): ,,Kevin Federline, fyrrverandi eiginmaður söngkonunnar Britney Spears, tók á móti sínu sjötta barni á dögunum. Federline sem er nú giftur Victoriu Prince, tók á móti stúlkubarni um helgina.” http://www.mbl.is/folk/frettir/2014/04/09/tok_a_moti_sinu_sjotta_barni/ – Dansarinn, leikarinn og fyrirsætan er sem sagt ljóðsmóðir líka !!!

Hve lengi ætlar Ríkissjónvarpið með ærnum tilkostnaði að misbjóða okkur með Hraðfréttabullinu? Á fimmtudagskvöld (10.04.2014)varð manni eiginlega flökurt, þegar piltarnir töluðu við okkur með troðfullan munn af mat sem þeir hámuðu græðgislega í sig.  Ógeðfellt. Hvað kostar þessi vitleysa Ríkissjónvarpið? Það getur ekki verið leyndarmál. Fulltrúi Hraðfréttanna spurði svo í Útsvari á föstudagskvöld (11.04.2014): Hvaða nögl handarinnar vex hraðast? Og svaraði svo: Það er að sjálfsögðu löngutöngin sem vex hraðast! Ja, hérna. Löngutöngin. Þóra Arnórsdóttir hefði alveg klárað þetta ein. Ríkissjónvarpið á ekki að láta fólk gera hluti sem það ræður ekki við.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>