Í íþróttafréttum Ríkissjónvarps (08.04.2014) kom bandaríska ríkið Connecticut við sögu. Íþróttafréttamaður talaði að minnsta kosti fjórum sinnum um /konnektikött/. Með áherslu á k-ið í miðju orðsins. K – ið á ekki að heyrast. Réttan framburð er auðvelt að finna á netinu. Til dæmis hér:
https://www.youtube.com/watch?v=O8tfEz_KJYU
Nafn ríkisins á ekkert skylt við ensku sögnina to connect, /kon´nekt/ að tengja. Sjá hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Connecticut
Það var dálítið undarlegt að heyra borgarstjórann í Osló tala við okkur á ensku í fréttatíma Ríkissjónvarpsins (08.04.2014). Varla hefur hann óskað eftir að ávarpa Íslendinga á ensku. Eða hvað? Var þetta sérstök ósk fréttastofu Ríkissjónvarpsins? Fróðlegt væri að vita það. http://www.ruv.is/sarpurinn/frettir/08042014/ekkert-osloartre
Í sama fréttatíma var sagt að verkfallsvörðum hefði verið komið fyrir við alla inn- og útganga. Verkfallsvörðum var ekki komið fyrir. Nema þetta hafi verið útklipptar pappamyndir í líkamsstærð. Eins og einu sinni voru gerðar af lögregluþjónum. Verkfallsverðir voru við alla inn- og útganga. http://www.ruv.is/sarpurinn/frettir/08042014/hofdu-ekki-hugmynd-um-verkfallid
Rafn bendir á frétt á mbl.is (08.042014) þar sem segir:,, Nýr formaður Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra var kosinn á aðalfundi Heimilis og skóla 7. apríl sl. og hefur Anna Margrét Sigurðardóttir nú tekið við formennsku en Ketill B. Magnússon hefur verið formaður frá aðalfundi 2011. Hún er fyrsti formaður samtakanna af landsbyggðinni en hún býr í Neskaupstað”. Rafn spyr:,, Er það misskilningur minn, að félögin „Heimili og skóli“ hafi verið hugsuð sem samtök eins skóla og margra heimila á viðkomandi skólasvæði?? Nafninu hafi síðan verið haldið óbreyttu við stofnun landssamtaka slíkra félaga. Það færist í vöxt að tala um heimili í eintölu í heiti samtakanna”. Molaskrifari þakkar Rafni bréfið.
Meira frá Rafni um erlenda frétt á mbl.is sama dag. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/04/08/fridhelgi_einkalifs_vegur_thyngra/
Rafn segir: ,,Í fréttinni er meðal annars að finna setninguna:
„Enn fremur segir dómurinn að ekki sé að finna í tilskipuninni neitt sem skyldar aðildarríkin til þess að tryggja það að upplýsingarnar séu misnotaðar.“
Þarna er annað tveggja, Evrópudómstóllinn á verulegum villigötum, ellegar það vantar eitt lítið ekki í setninguna. Ég tel það síðara líklegra, enda ólíklegt að dómstóll vilji tryggja misnotkun.” Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar