Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (07.04.2014) var talað um ástralskt sjóherskip ! Hver skyldi vera munurinn á sjóherskipi og herskipi? Kannski var þýtt úr ensku þar sem talað var um naval, navy vessel , ship ?
KÞ sendi Molum línu (05.04.2014) og spyr: Hvað heita puttarnir? – Það er eins og gleymst hafi að kenna sumum börnunum þetta.
Sjá frétt á visir.ishttp://www.visir.is/ahorfandi-greip-boltann-og-syndi-midfingurinn—myndband/article/2014140409474
Molaskrifari þakkar ábendinguna. Það sem fréttabarnið á visir.is kallar miðfingurinn heitir langatöng. Þumalfingur eða þumall, vísifingur eða bendifingur, langatöng, baugfingur eða græðifingur og litli fingur. Er þetta ungu fólki horfinn fróðleikur? Það væri miður, ef svo er.
Ómar Ragnarsson vakti athygli á því á fésbók að fréttatími Stöðvar tvö (09.04.2014) hefði hafist á orðunum ,,Þjóðarbúinu vantar ….”: https://www.facebook.com/eidur.gudnason/posts/10202294378304110?notif_t=wall
Rétt hjá Ómari. Telma Tómasson, fréttaþulur, las án þess að hika:,,Þjóðarbúinu vantar jafnvirði hundrað milljarða króna á ári í erlendum gjaldeyri á næstu fimm árum til að standa undir afborgunum lána í erlendri mynt ….”. Ja, hérna.
Fróðlegt viðtal Arnars Páls í Speglinum (08.04.2014) við forstöðumenn þeirra tveggja stofnana Háskóla Íslands, Hagfræðistofnunar og Alþjóðastofnunar, sem samið hafa skýrslur um ESB aðildarsamninga og samningaferlið. Upplýsandi. Gagnrýni Vigdísar Hauksdóttur (og fleiri stjórnarsinna) á skýrslu Alþjóðastofnunar vegin og léttvæg fundin, án þess þó að þingmaðurinn væri nefndur á nafn.
Steini sendi Molum ábendingu vegna þessarar fréttar á vef Ríkisútvarpsins: (07.04.2014): http://ruv.is/frett/sparkadi-i-hredjar-arasarmannsins
Hann segir: ,, Í þessari frétt er mikið svigrúm fyrir framfarir. Þarna er hugsunarlaust blandað saman þátíð og nútíð, endurtekningar á hinu leiðinlega orði „náði“ að gera hitt og „náði“ að gera þetta. (tókst að…er betra ) Og einnig er óljóst hvernig í ósköpunum viðmælandi fréttarinnar ,,náði“ yfirhöfuð að sparka í klof á manni, þá kominn niður á vinstra hnéð. Ég prófaði að sparka út í loftið í þessari stellingu og rétt tókst að slæma fætinum máttleysislega í hnéhæð á ímynduðum óvini.
Þessi frétt er illskiljanleg og ekki nógu vel stíluð.” Molaskrifari þakkar ábendinguna.
KÞ spyr í tölvupósti (08.04.2014) hvort nátthrafnastofninn sé nú loksins fundinn? Hann vísar á meðfylgjandi á svokölluðu Smartlandi mbl.is: http://www.mbl.is/smartland/samskipti/2014/04/07/naeturuglur_stunda_meira_kynlif/
Góð ábending! Næturuglur! Eftir öðru sem birt er undir þessu Smartland heiti Morgunblaðsins.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar