«

»

Molar um málfar og miðla 1448

Í fréttayfirliti Ríkisútvarpsins, bæði á undan og eftir fréttum (05.04.2014), var sagt frá íþróttakappleik, sem fram hefði farið á Ólafsvík. Hvað segja vinir mínir í Ólafsvík? Heyrði aldrei nokkurn mann segja á Ólafsvík, þegar ég átti sem oftast leið þar um. Í fréttinni sjálfri var hinsvegar réttilega sagt í Ólafsvík. Fréttamenn Ríkisútvarpsins eiga að fylgja málvenju heimamanna. Líka þeir sem skrifa íþróttafréttir.

 

Lesandi vakti athygli á þessari frétt á dv.is (05.04.2014): http://www.dv.is/frettir/2014/4/5/taekniskolinn-sigradi-songkeppni-framhaldsskolanna/

Fyrirsögnin er sem : Tækniskólinn sigraði söngkeppni framhaldsskólanna. Hann segir: Eitt lítið í getur gert gæfumuninn.”

Rétt er það.

TH benti einnig á þetta og spyr: ,,Sigraði hann keppnina? Fáum við ekki að vita næst hvernig keppnin tók tapinu?” DV segir okkur áreiðanleg fljótlega frá því ! Molaskrifari þakkar ábendingarnar. Fulltrúi Tækniskólans sigraði í keppninni. Hann sigraði ekki keppnina. Það sigrar enginn keppni.

 

Í fréttum Stöðvar tvö (05.04.2014) var okkur sagt að kjörstaðir í Afghanistan hefðu opnað. Ekki var sagt hvað það var sem kjörstaðirnir opnuðu. Þeim gengur illa að ná þessu á fréttastofu Stöðvar tvö. Ríkisútvarpið er nú orðið með þetta á hreinu.. Kjörstaðir voru opnaðir. Þeir opnuðu hvorki eitt né neitt.

 

Í sjónvarpsauglýsingu frá fyrirtækinu Allianz er talað um þína stöðu og þína framtíð. Eðlilegri orðaröð á íslensku væri: Stöðu þína og framtíð þína.

 

Ekki amalegt að fá sígilda tónlist, og það ekki af lakara taginu, í Ríkissjónvarpinu undir lok dagskrár í gærkvöldi (07.04.2014), Jaroussky og Concerto Köln. Mættum við að meira að sjá og heyra.

 

Á laugardagskvöld (05.04.2014) seinkaði dagskrá Ríkissjónvarps um 25 mínútur. Söngkeppni framhaldskólanna varð lengri en ráð var fyrir gert. Látum það nú vera. En ekki eitt afsökunarorð eða skýring. Hvorki í skjátexta né þulartexta, – enda ræður niðursoðna konuröddin ekki við slíkt. Í Ríkissjónvarpinu eru menn ekki vel að sér í mannasiðum eða almennri kurteisi. Þetta hefði ekki gerst hjá alvöru sjónvarpsstöð. Áhorfendur eiga skilið að komið sé fram við þá af kurteisi. Það gerði Sigvaldi Júlíusson útvarpsþulur um hádegið á sunnudag (06.04.2014), þegar hann bað hlustendur afsökunar á truflunum í útsendingu guðsþjónustunnar, sem þá var nýlokið. Skylt er  raunar að geta þess að Bogi Ágústsson flutti  alvöru leiðréttingu og afsökunarbeiðni, þegar rangt var farið með nafn í sjónvarpsfréttum  á mánudagskvöld (07.04.2014). Bogi kann þetta.

 

Það er  auðvitað einstök snilld í dagskrárgerð að láta Hraðfréttadrengina kynna Söngkeppni framhaldsskólanna og koma svo strax á eftir með hinar hallærislegu Hraðfréttir. Svo tók við tækniklúður í útsendingu!!!

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>