«

»

Molar um málfar og miðla 1458

Ljóst er að umfangsmikið verkefni bíður þingmönnum, (!!!) sagði fréttamaður Stöðvar tvö (23.04.2014) í upphafi fréttar um frumvarp til laga um veiðileyfagjald sem rætt verður á Alþingi eftir helgi. Það er slök verkstjórn á fréttastofu Stöðvar tvö að lesa ekki yfir handrit fréttamanna sem hafa ekki betri tök á móðurmálinu en þetta. Umfangsmikið verkefni bíður þingmanna.

 

K.Þ. skrifaði (22.04.2014) og vakti athygli á eftirfarandi orðalagi í frétt á mbl.is: ,, … og sömu er að segja um Terry en ekki er þó lokum skotið fyrir að hann nái að spila úrslitaleikinn í Meistaradeildinni komist Chelsea þangað”. Ég hélt, að ein nægði, segir K.Þ.- réttilega: http://www.mbl.is/sport/enski/2014/04/22/stadfest_ad_cech_og_terry_spila_ekki_meira_a_timabi/

 

Í seinni fréttum Ríkissjónvarps á miðvikudagskvöld (24.04.2014) talaði fréttamaður um að setja lög á verkbann í frétt um kjaradeilu flugvallastarfsmanna og Isavia. Óskiljanlegt. Ef til vill  veit fréttamaður ekki hvað orðið verkbann þýðir. Það er þegar atvinnurekendur  banna fólki að mæta til vinnu.

 

Það er fremur dapurlegt að heyra í lok hvers einasta fréttatíma á miðnætti í Ríkisútvarpinu, að næstu fréttir verði klukkan sjö næsta morgun! Ríkisútvarpið hlýtur að geta gert betur. Ef fé skortir, er hægt að forgangsraða að nýju. Til dæmis sleppa hinu heimskulega rugli sem kennt er við Hraðfréttir. Ríkisútvarpið, þjóðarútvarpið, á að flytja okkur fréttir á klukkutíma fresti allan sólarhringinn. Fjölmennasta fréttastofa landsins, sem margt gerir ákaflega vel, hlýtur að ráða við það.

 

,,Nú er ég hætt að plöggaplug á ensku., sagði ung stúlka sem var að enda útvarpsþátt á Rás tvö rétt fyrir klukkan sjö á miðvikudagskvöldi (23.04.2014). Hún átti sennilega við að hún væri hætt að auglýsa væntanlega viðburði eins og þáttastjórnendur óspart gera. Dagskrárstjórar eiga að áminna þáttastjórnendur í Ríkisútvarpinu sem sletta ensku á hlustendur.

 

Molalesandi benti á DV frá því fyrr í þessum mánuði (09.04.2014), en þar segir:
,,Bíll sem var að koma úr gagnstæðri átt missti stjórn á sér og lenti framan á bílnum þeirra en þau voru á leið út á Keflavíkurflugvöll…” Þótt þetta sé dapurleg frétt er orðalagið óneitanlega kyndugt.

Í kynningu á efni Kastljóss (23.04.2014) var talað um framlag Íslendinga fyrir verndun mannréttinda í Kósóvó …. Rétt hefði verið að tala um framlag Íslendinga til verndunar mannréttinda … Meiri vandvirkni, takk.

Það er óneitanlega dálítið sérstakt að heyra hve margir þeirra sem flytja okkur veðurfréttið í sjónvarpi hafa tamið sér að flytja áherslu yfir á seinni hluta orða. Tala um SuðurLANDIÐ, suðurSTRÖNDINA. Í íslensku er áhersla jafnan á fyrsta atkvæði. Þetta er aldeilis óþörf og algjörlega ástæðulaus breyting.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>