GLEÐILEGT SUMAR!
Fréttamenn verða að skilja orðatiltæki sem þeir nota í fréttum. Hvalveiðar Íslendinga hafa verið mikið í deiglunni síðustu misseri, sagði fréttamaður í fréttum Stöðvar tvö á annan í páskum (21.04.2014). Þegar sagt er að eitthvað sé í ídeiglunni, þá er verið að tala um eitthvað, sem er í undirbúningi eða í mótun. Fréttamaður hefur greinilega haldið að þetta þýddi að hvalveiðarnar hefðu verið mikið í umræðunni, mikið til umræðu. Enn og aftur kemur í ljós að gæðaeftirlit með fréttaskrifum er að mestu úr sögunni. Til starfa er komið of mikið af fólki sem ekki hefur nægilega góð tök á móðurmálinu.
Rússneskar herflugvélar nærri Íslandi , var villandi fyrirsögn á fréttavef Ríkisútvarpsins (23.04.2014) Sjá: http://www.ruv.is/frett/russneskar-herflugvelar-naerri-islandi
Þegar fréttin er lesin, kemur í ljós að vélarnar voru hreint ekkert nálægt Íslandi. Þær voru skammt norðaustur af Skotlandi.
Villur eru nokkuð algengar í auglýsingum. Í Fréttablaðinu laugardaginn fyrir páska (19.04.22014) auglýsir Hagkaup eftir öryggisvörðum. Í auglýsingunni segir að leitað sé að einstaklingum sem séu ,,… og útsjónasamir”. Á að vera útsjónarsamir. Í auglýsingu frá Faxaflóahöfnum segir:,,Þeir aðilar sem hafa áhuga á að nýta sér þetta og hafa tilskilin rekstrarleyfi er boðið að senda inn umsókn …” Hér ætti að segja: ,,Þeim aðilum sem …. er boðið að senda inn umsókn”. Enn eitt dæmi um beygingafælni, eða þá trú að upphafsorð setningar verði ævinlega að vera í nefnifalli. Í fasteignaauglýsingu segir:,,Veglegar innréttingar skarta íbúðirnar og stórir gluggar til að njóta útsýnisins”. Hér hefur textahöfundi brugðist bogalistin. Of margar auglýsingastofur láta frá sér fara lélegan texta. Íbúðirnar skarta veglegum innréttingum, hefði verið ögn skárra; þó slæmt.
Á fésbókinni fær fréttastofa Ríkisútvarpsins verðskuldað hrós frá Árna Gunnarssyni fv. alþingismanni og fréttamanni (23.04.2014) fyrir umfjöllun um skýrslu rannsóknarnefndarinn sem kannað hrun sparisjóðanna. https://www.facebook.com/arni.gunnarsson.52?fref=nf
Vel mælt.
G.G. Benti á þessa frétt á vefnum visir.is (23.04.2014) http://www.visir.is/article/20091219/LIFID01/874263568
Og þessa frétt sama dag á mbl.is og segir: ,,Sennilega hefur Cox rétt fyrir sér ef marka má þessa frétt af mbl.is 23.04.2014. Þar „klikkar“ meira en góðu hófi gegnir”,http://www.mbl.is/folk/frettir/2014/04/23/thad_er_ekki_ad_fara_gerast/ . Þessi skrif eru með ólíkindum. Hvar er gæðaeftirlitið? Enginn prófarkalestur.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar