«

»

Molar um málfar og miðla 1456

 

Molavin skrifaði ,,Hugleiðingu um hnignun fréttamáls” (20.04.2014): ,,Þegar ekkert er kennt og engum leiðbeint á ritstjórnum og fréttastofum fer málfarið smám saman að laga sig að lægsta samnefnara. Nýgræðingar éta upp vitleysu hver eftir öðrum; sérstaklega það sem þeim finnst hljóma fínt. Þetta er svolítið líkt því þegar foreldrar apa upp barnamál eftir smábörnum, sem fara þá að halda að það sé rétt. Barnamál eins og,,nammí“ eða ,,dingla bjöllunni“ er farið að rata inn í fréttir. Málvenjur glatast með þessum hætti en eftiröpun fer vaxandi.

 

Í fréttayfirliti Ríkisútvarpsins var talað um ísfirzka tónlistarhátíð og sagt að hljómsveitir myndu ,,stíga á stokk.“ Ekkert var þó minnzt á heit eða loforð. Í sjálfri fréttinni sagði viðmælandinn réttilega að þær myndu stíga á svið. Svona lagað heyrist æ oftar. Eins heyrir það til undantekninga að sagt sé í frétt að menn hafi látizt í slysi. Oftast er sagt að þeir hafi látizt ,,eftir slys.“ Hver er þá orðin merking orðsins ,,slys“?

 

Ýmsum þykja athugasemdir af þessu tagi smámunasemi ,sem engu máli skipti. Mál verði líka að fá að þróast. Þetta held ég að sé sér-íslenzk afstaða og dæmi um undanlátssemi við fúsk. Nær allar metnaðarfullar útvarpsstöðvar, svo sem BBC, gera kröfur til fréttafólks og þula og gefa út leiðbeingarit um fyrirmyndar málfar. Það þarf ekki að kosta miklu til að bæta þetta – en það þarf hugarfarsbreytingu.” Molaskrifari þakkar þessa ágætu hugleiðingu.

 

Ekki heyrði Molaskrifari betur en fréttamaður Ríkisútvarpsins á Ísafirði talaði um lænuppið í kvöld. (19.04.2014) Efast um að allir hlustendur hafi skilið konuna. Brýna þarf málvöndun fyrir fréttamönnum. Hugleiðing hér að ofan er sannarlega tímabær.

 

Í frétt um umferðarslys í Rússlandi á mbl.is (20.04.2014) sagði: Hann lét skömmu síðar lífið á sjúkrahúsi. Þetta hefði Molaskrifari orðað á annan veg. Til dæmis: Hann lést skömmu síðar á sjúkrahúsi.

 

Vonandi sjá hinir nýju stjórnendur Ríkisútvarpsins til þess að fíflagangi svokallaðra Hraðfrétta linni og fjáraustri verði hætt í þennan vitleysisgang.

 

Skipið var farið að halla mikið, var sagt í fréttum helgina (- man ekki svo öruggt sé hvar þetta var sagt). Betra hefði verið að mati Molaskrifara að segja: Skipinu var farið að halla mikið, skipið var komið með mikla slagsíðu. Ef til vill er þetta sérviska Molaskrifara.

 

Í Ríkissjónvarpi (20.04.2014) talaði veðurfræðingur um páskahret sem hefðu riðið yfir landann! Ja, hérna.

 

Í fréttayfirliti Stöðvar tvö á páskadag (20.04.2014) var sagt að fréttamaður hefði farið í þéttsetna Hallgrímskirkju, en á skjánum sáum við nokkra fremstu bekki kirkjunnar auða. Þetta var svo endurtekið í lok frétta og þá brá fyrir brosviprum hjá fréttaþul,sem vonlegt var. Þetta rifjaði upp þegar Molaskrifari var einhverju sinni að lesa fréttir í árdaga sjónvarps að hann las frétt um hafnarframkvæmdir í Neskaupstað. Sagði, að við hafnargerðina væru notuð stórvirk tæki. Á skjánum var þá mynd af manni með skarexi að höggva til svolítinn spýtukubb! – Eftir á að hyggja hefur þetta líklega verið nefnt áður í Molum!

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Góð grein. Takk fyrir ábendinguna. K kv ESG

  2. Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar:

    Hér er athyglisvert sjónarmið sem sýnir að tungumál getur verið og er síkvikt en ekki fasti: http://visindavefur.is/svar.php?id=6793

  3. Eiður skrifar:

    Rétt, Egill. Takk fyrir þetta.

  4. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Undir fyrirsögninni „Bretar drekka betur en áður“ á mbl.is í dag stendur þetta:
    Jonathan Shepard sem stýrði rannsókninni segir breytt og dýrara áfengisverð……………..
    Ég hef heyrt um hærra verð en dýrara verð er alveg nýtt fyrir mér.
    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>