«

»

Molar um málfar og miðla 1459

Úr frétt frá forsætisráðuneytinu (25.04.2014): ,,Á fundinum voru tvíhliða samskipti landanna rædd, þ.m.t. eftirmálar Icesave deilunnar og endurgreiðslur úr þrotabúi gamla Landsbankans. “ Þetta er orðrétt úr frétt frá forsætisráðuneytinu.Er enginn sæmilega skrifandi maður eftir í forsætisráðuneytinu? Þetta er til skammar. Eftirmáli er kafli eða pistill í bókarlok.,,Niðurlagsorð ,texti aftan við meginmál”. Eftirmál eru eftirköst afleiðingar af einhverju, – venjulegar neikvæðar. Ætlaði ekki forsætisráðherra að leggja sérstaka rækt við móðurmálið? Hann er heldur betur að gera það

 

Molavin skrifaði (24.04.2014): ,,Það eru ýmsar leiðir til að finna góð nýyrði þegar tæknin kallar eftir slíku. Verst er þó sú leið að gera orðin flókin eða samsett og löng. Í Vísisfyrirsögn segir: „Apple vill stöðva sms skrif við akstur“ Hér er í góðu lagi að taka upp orðrétt úr ensku (texting) og segja „textun“ í stað þvælinnar langlokunnar sms-skrif. Smáskilaboðin á símanum eru stuttur texti og óþarfi að búa til samsett orð.

Önnur langloka, sem virðist hafa fest sig í sessi er orðið „skemmtiferðaskip.“ Langt og óþjált. Fyrr á öldum voru vel búin skip fyrirmenna kölluð „lystiskip“ sem er hljómfagurt, þjált orð og stutt og á mun betur við það, sem á ensku heitir ,,Cruise“. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Molavin bætti við daginn eftir (25.04.2014): ,,Leikskólamálið nær nú inn á fréttasíður sjálfs Ríkisútvarpsins. Þar segir í dag, 25.04.2014 í fyrirsögn: ,,Mjólkurnammi í mjólkurlausum Freyju-eggjum.“ Þar mun vera átt við að sælgæti í páskaeggjum innihaldi mjólkurvörur.” Molaskrifari þakkar bréfið. Orðið mjólkurnammi á ekkert erindi á fréttasíður Ríkisútvarpsins. Það er svo sannarlega rétt.

 

Ósmekklegar og ógeðfelldar myndir af einhverju sem kallað var ,,kappát” í fréttum Stöðvar tvö (24.04.2014). Þetta var ekki frétt og átti ekkert erindi í fréttatíma. Minnti á Hraðfréttir og Andra Frey í Ríkissjónvarpinu.

 

Í fréttum Stöðvar tvö var sagt frá verkfallsaðgerðum flugvallastarfsmanna (25.04.2014). Þar var sagt: ,, … með tilheyrandi raski á flugi”, – kannski sérviska, en Molaskrifari hefði orðað þetta á annan veg og sagt: ,, … með tilheyrandi röskun á flugi”. Í þessum sama fréttatíma var enn eitt dæmi um óþarfa þolmyndarnotkun þegar sagt var um hóp eftirlitsmanna frá ÖSE í Úkraínu, að þeim hefði verið rænt af hópi aðskilnaðarsinna. Aðskilnaðarsinnar rændu þeim. Germynd er alltaf betri.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sammála, Egill. Ekki góð fyrirsögn. K kv Eiður

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eður,
    “ Tíu látnir í skýstrókum“ er fyrirsögn á mbl.is í dag. Þetta er kannski ekki vitlaust en ég hefði kunnað betur við “ Tíu látnir vegna eða af völdum skýstróka“.
    Menn látast yfirleitt af völdum skýstróka en ekki í þeim.
    Kv, Egill

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>