«

»

Molar um málfar og miðla 1460

Gríðarlegar rigningar eru taldar orsakavaldar flóðanna, var sagt í fréttum Stöðvar tvö (26.04.2014). Orsakavaldar? Mikil úrkoma olli flóðunum. Miklar rigningar voru orsök flóðanna.

 

Það vefst fyrir sumum fréttamönnum Ríkisútvarpsins að hafa réttan framburð á heiti ríkisins Arkansas í Bandaríkjunum. Í átta fréttum (28.04.2014) var sagt að skýstrokkar, skýstrókar, eða hvirfilbyljir hefðu þar orðið tólf manns að bana. Ýmist var talað um / arkansas /eða / arkansa /, þegar réttur framburður er nær því að vera / arkanso /. Þetta má heyra hér: https://www.youtube.com/watch?v=We2VJKTvkCA

Í næsta fréttatíma var ekki á þetta minnst. Þá var fyrsta frétt upptugga úr morgunútvarpi um að landbúnaður í veröldinni væri ekki sjálfbær. Það er hreint ekki ný frétt. Í yfirliti hádegisfrétta klukkan tólf var enn talað um / arkansa /!  En Broddi Broddason  og Sveinn Helgason í Washington voru  með þetta rétt og alveg á hreinu í aðalfréttatímanum í hádeginu.

 

Blikarnir fengu blóð á tennurnar, sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarps (26.04.2014). Þetta er danskt orðatiltæki sem á sér ekki hefð í íslensku máli. Leyfum Dönum að eiga það. Blod på tanden, segja Danir. Þarna hefði til dæmis mátts segja að Blikar hefðu allir færst í aukana, þeim hafi hlaupið kapp í kinn. Danir mega áfram vera blóðtenntir.

 

Undarlegt að fréttamaður Ríkisútvarps (28.04.2014)  skuli tala um setningu bráðabirgðalaga , ef til  verkfalls flugvallastarfsmanna skyldi koma. Fréttamenn eiga að vita að ekki er hægt að setja bráðabirgðalög  meðan Alþingi situr. Alþingi situr og er að störfum. Furðuleg fáfræði.

 

Sífellt er talað um íþróttapakka. Það gera íþróttafréttamenn, fréttamenn og nýr fréttastjóri Ríkissjónvarps. Hvað er að því að tala um íþróttafréttir eða íþróttaþætti?

 

Svokallaðir Hraðfréttamenn Ríkissjónvarps sáu ástæðu til að hafa kristna trú í flimtingum í ríkismiðlinum á laugardagskvöld (26.04.2014). Er stjórnendum Ríkissjónvarpsins ekkert heilagt? Hversvegna er fé sóað í þennan vitleysisgang?

 

KÞ bendir á eftirfarandi frétt (27.04.2014) á dv.is: https://www.dv.is/skrytid/2014/4/27/simpansi-kaerir-eiganda-sinn/ Hann spyr: ,,Er þetta nýyrði, lifnaðaraðstæður?

Hvar í heiminum ætli málið sé rekið? Það kemur ekki fram í fréttinni.” Þetta er hálfgerð endemisfrétt, ef þannig má að orði komast.

KÞ vísar einnig til þessarar fréttar (26.04.2014) á fréttavef Ríkisútvarpsins og spyr hvort syndaflóð sé hafið? Sjá http://www.ruv.is/frett/ukrainumenn-haetta-ad-sja-krim-fyrir-vatni

Molaskrifari þakkar KÞ ábendingarnar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>