«

»

Molar um málfar og miðla 1461

 

Ofríki, mér liggur við að segja ofbeldi, íþróttadeildar Ríkissjónvarpsins náði nýjum hæðum í kvöld, þriðjudagskvöld (29.04.2014) þegar ekkert var á boðstólum nema íþróttir frá klukkan 1930 til klukkan 2200. Þetta er óboðleg dagskrárgerð. Nýr útvarpsstjóri verður að stöðva taumlausan yfirgang íþróttadeildar.

 

Eftirfarandi var marglesið yfir okkur í fréttum Ríkisútvarpsins (28.04.2014) og er auk þess að finna á fréttavef Ríkisútvarpsins: Nokkrir menn særðust í borginni Kharkiv í gær þegar að stuðningsmenn sameinaðrar Úkraínu lenti saman við stuðingsmenn Rússa. Sjá: http://www.ruv.is/frett/evropa-herdir-a-refsiadgerdum. Þetta er frekar klaufalega orðað. Þegar að ! Þegar, hefði nægt. Stuðningsmenn lenti ekki saman við ! Stuðningsmönnum sameinaðrar Úkraínu og stuðningsmönnum Rússa lenti saman, – átök urðu milli stuðningsmanna sameinaðrar Úkraínu og stuðningsmanna Rússa.

 

Tilfinningaþrunginn fréttaflutningur Ríkissjónvarps af málefnum f hælisleitanda frá Afghanistan, sem sveltir sig, (28.04.2014) orkar tvímælis. Fram hefur komið að manninum var vísað frá Svíþjóð. Svíar hafa tekið við miklum fjölda hælisleitenda og þykja frjálslyndir í þeim efnum. Enginn fjölmiðill hefur spurt hversvegna þessi hælisleitandi fékk ekki hæli í Svíþjóð. Það eru undarleg vinnubrögð. Á hinn bóginn er það óafsakanlegt að yfirvöld skuli hafa verið með mál mannsins til umfjöllunar í næstum tvö ár!

 

Um helgina birtust borgaheiti á Evrópukorti í veðurfregnum Ríkissjónvarps. Minnir að það hafi verið hjá Birtu Líf veðurfræðingi. Á mánudagskvöld (28.04.2014) voru borgaheitin horfin. Þetta er sem sé hægt, eins og oft hefur verið óskað eftir hér í Molum. En bara stundum. Eða hvað?

 

Menningarhátíð barna, sem svo er kölluð, auglýsir í útvarpi: Reykjavík got talent. Þetta þykir Molaskrifara vond auglýsing.

 

Guðmundur G. benti á þessa frétt á visir.is (28.04.2014): http://www.visir.is/article/20140428/FRETTIR01/704289969

Hann segir: Fjölmiðlafólki gengur illa að læra að:
Menn VINNA keppni og SIGRA andstæðingana.

 

Undarleg fyrirsögn á smáfrétt í Fréttablaðinu (29.04.2014): 100 eignir seldar í borginni: Handfylli sölu út um landið. Skilur þetta einhver?

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>