«

»

Molar um málfar og miðla 1462

Molavin skrifaði (29.04.2014): ,,Ríkissjónvarpið sagði frá því í sunnudagskvöldfréttum (27.4.14) að Danir hefðu nú tekið upp þann sið að hafa matarleifar með sér heim af veitingastöðum. Heldur þykir mér þetta ókræsilegt og því ólíklegt, því Danir eru almennt ekki sóðar í matarmálum. Líklegra er að sá siður hafi nú verið tekinn þar upp – sem áður þótti ekki góður á dönskum veitingastöðum – að fá pakkað inn þeim mat, sem borinn hafði verið á borð en ekki verið neytt. Slíkt heitir afgangar en ekki leifar. Matarleifar er það sem komið er á disk en klárast ekki. Það er alsiða í Bandaríkjunum að þjónar bjóðist til að setja þann mat, sem borinn hefur verið á borð en ekki neytt, í plastbakka svo fólk getið tekið með heim. Áður fyrr var þetta oft kallað ,,matur fyrir hundinn“ (doggie-bag). Þetta er gott innlegg í baráttuna gegn matarsóun. En fréttafólk þarf að gera greinarmun á afgöngum og leifum.” Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Þáttastjórnandi á Rás tvö notaði (29.04.2014) orðið diva um Björgvin Halldórsson,dægurlagasöngvara. Orðið diva er notað á ýmsum erlendum málum um framúrskarandi óperusöngkonur. Björgvin Halldórsson er ekki óperusöngkona. Þegar þáttastjórnendur sletta erlendum orðum verða þeir helst að vita hvað sletturnar merkja.

 

Fréttamaður Stöðvar tvö (29.04.2014) sagði í frétt um verksfallsfrestun flugvallastarfsmanna, að menn veltu fyrir sér hvort yfirvofandi lögbann á verkfallið ….! Það verður að gera þá kröfu til fréttamanna að þeir kunni skil á einföldum grundvallarhugtökum lögfræðinnar. Það var ekki til umræðu að setja lögbann á verkfallið, enda slíkt  út í hött. Það var hinsvegar rætt, hvort ef til vill yrðu sett lög um frestun verkfallsins. Nýlega ruglaði fréttamaður Ríkisútvarps um setningu bráðabirgðalaga vegna boðaðs verkfalls (Molar 1460). Bráðabirgðalög er ekki hægt að setja þegar Alþingi er að störfum. Þetta eru grundvallaratriði, sem hljóta að vera kennd í fjölmiðlafræðum við háskólana hér.

 

Þið eruð með bakið upp við vegginn, sagði íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins (29.04.2014). Hann átti væntanlega við að þeir sem við var rætt ættu undir högg að sækja, ættu á brattann að sækja eða ættu í vök að verjast, – jafnvel, væru komnir út í horn.

 

Molalesandi sendi eftirfarandi (29.04.2014) ,, Ég held þú hefðir áhuga á að lesa þetta.
Tengill við greinina: http://www.visir.is/article/20130503/FRETTIR01/130509686   Draugaleg fréttaskýring.
Hér virðist Sigurður Kristján, sem kvað hafa dáið barnlaus 1940, hafa erft Magnús H. Einarsson. Síðan taka málin að flækjast af því að Sigurður Kristján gerir sér lítið fyrir og eignast fimm börn – og dó aftur 1966. Síðan hafa staðið málaferli…
.http://www.dv.is/frettir/2014/4/28/aettingjar/
Molaskrifari þakkar sendinguna. Birt lesendum til fróðleiks og kannski nokkurrar furðu!

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>