«

»

Molar um málfar og miðla 1470

Molavin skrifaði:,,Enskuskotin hugtök eiga enn sterk ítök í fréttamáli, jafnvel þar sem góð, íslenzk heiti eru til. Á síðu ruv.is segir m.a. í frétt í dag (12.05.14): „Hann segir ferðamannaiðnaðinn á Íslandi í dag einkennast af fagmennsku og sé á heimsmælikvarða. Stacey skrifaði Samtökum ferðaþjónustunnar bréf…“ Í fréttinni er í tvígang talað um ,,ferðamannaiðnaðinn“ (e. travel industry) á Íslandi þótt svo sé vitnað í Samtök ferðaþjónustunnar. Birna Bjarnleifsdóttir, einn af frumkvöðlum ferðaleiðsagnar á Íslandi, barðist árum saman fyrir því að afnema þessa ensku þýðingu en nota orðið ,,ferðaþjónusta.” Það er leitt að RUV skuli falla í þennan pytt.” Allt er þetta rétt sem Molavin segir. Molaskrifari þakkar sendinguna.

 

Merkileg fréttamennska hjá Ríkissjónvarpinu að segja eingöngu frá ræðu forsætisráðherra SDG í seinni fréttum (15.05.2014). Kom svo sem ekkert sérstaklega á óvart. Sami háttur var hafður á í miðnæturfréttum Ríkisútvarps. Skorti fréttastofuna kjark til að segja frá því hvernig Steingrímur J. hrakti rangar yfirlýsinga SDG lið fyrir lið? Engu líkara.

 

Úr frétt á mbl.is (10.05.2014): ,,Borg­ar­bú­ar og aðrir góðir gest­ir koma sam­an í miðborg Reykja­vík­ur í dag til að fagna fjöl­breyti­leik­an­um og þá lit­ríku ein­stak­linga sem þar búa, …” …. og þeim litríku einstaklingum ….. ætti þetta að vera. Svo er líka til orðið fjölbreytni. Í sömu frétt segir: ,, Í Ráðhús­inu er að finna fjölþjóðleg­an markaður í Tjarn­ar­sal …” Þar er að finna fjölþjóðlegan markað. Fréttabarnið sem þetta skrifaði virðist ekki hafa mikla tilfinningu fyrir móðurmálinu. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/10/fagna_fjolbreytileikanum

/

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins (15.05.2014) var tvívegis farið rangt með nafn Önnu Birnu Jensdóttur, forstjóra hjúkrunarheimilisins Sóltúns. Ekki góð vinnubrögð. Ekki heyrði Molaskrifari að þetta væri leiðrétt. Fréttamenn eiga að gæta þess að fara rétt með nöfn þeirra sem rætt er við eða um fjallað. Grundvallarregla.

 

Fyrir nokkrum dögum gekk Molaskrifari svokallaða Frelsisslóð (Freedom trail) í Boston þar sem leiðin liggur fram hjá ýmsum sögustöðum í borginni. Meðal annars húsi Pauls Revere, hetjunnar úr ameríska frelsisstríðinu eða byltingunni. Þar var hópur grunnskólabarna að skoða svefnherbergi á annarri hæð.  Leiðsögmaður fræddi þau um sögu hússins. Sagði að börnin, strákar og stelpur hefðu á sínum tíma sofið sitt í hvoru herberginu og það hefði verið hlutverk yngsta barnsins að hella úr koppunum (chamber pots). Í lokin spurði hann hvort einhver hefði spurningar fram að færa. Eitt barnið rétti strax upp hendina og spurði: What is a chamber pot? Leiðsögumaðurinn útskýrði það. Einskonar klósett, geymt undir rúmi. Á leiðinni út velti skrifari því fyrir sér hvort íslensk grunnskólabörn væru með það á hreinu hvað koppur væri. Sennilega. En líklega þekkja fæst þeirra orðið næturgagn. Þannig er nú það.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Strákarnir sváfu í einu herbergi, stelpurnar í öðru.

  2. Arnbjörn Jóhannesson skrifar:

    Tillaga um breytingu þar sem ‘… strákar og stelpur hefðu … sofið sitt í hvoru herberginu…’ gengur ekki upp:
    ‘… strákar og stelpur hefðu sofið sín í hvoru herberginu… ‘ eða ‘…hvor í sínu herberginu…’
    Ef öll hafa sérherbergi: ‘… sitt í hverju herberginu…’ eða ‘…hvert í sínu herberginu…’

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>