«

»

Molar um málfar og miðla 1471

Þórhallur Jósepsson skrifaði (16.05.2014): ,,Sæll Eiður.
Ég las í þætti 1470 réttmæta athugasemd frá Molavin um endurtekna notkun Fréttastofu Ríkisútvarpsins á orðinu „ferðamannaiðnaði.“ Mig langar að bæta ögn við þær vangaveltur.
Enska orðið industry er í orðabókum gefið upp sem iðnaður. En, í enskunni er industry notað um margt fleira: Banking industry, airline industry, shipping industry. Þá er verið að ræða um atvinnugrein, þjónustugrein, alls ekki iðnað. Ég hef oft tekið eftir hjá fjölmiðlamönnum á öllum miðlum að þeim virðist ekki vera kunnug þessi fjölbreytni í merkingu orðsins.
Svo smitar þetta yfir í fleira. Í enskunni er gjarnan talað um increase þegar atvinnugrein vex og umsvif aukast. Increase merkir einna helst vöxtur eða aukning. Seinni þýðingin virðist hafa sest varanlega að hjá fjölmiðlum, þegar þeir segja fréttir af og ræða um vöxt, líka þegar sagt er frá fjölgun. Ætli það sé ekki úr þessari ensku sem hið fáránlega orðalag „aukning ferðamanna“ er komið?
Mér finnst það í meira lagi furðulegt að fjölmiðlamenn virðast flestir hverjir hafa gleymt eða týnt niður, jafnvel aldrei kunnað, orðalaginu að fólki geti fjölgað eða fækkað. Þannig heyrum við ekki aðeins um „aukningu ferðamanna“ sem styrki „ferðamannaiðnaðinn“ heldur hafa íbúar hinna ýmsu byggðarlaga aukist líka. Ætli þeir hafi fitnað svo ótæpilega?
Og fjölmiðlamenn mættu velta því fyrir sér líka, í hverju „ferðamannaiðnaður“ felist, ætli sú atvinnugrein fáist við að framleiða ferðamenn? Kveðjur, Þórhallur Jósepsson.” – Molaskrifari þakkar Þórhalli þetta ágæta bréf.

 

Í morgunfréttum Ríkisútvarps (16.05.2014) var sagt: Fimmtíu og fjögur mál eru á þingfundi í dag… Á mbl.is var réttilega talað um fjölda mála á dagskrá þingfundar í dag. Í sama fréttatíma Ríkisútvarpsins var talað um lögbann á verkfall flugmanna. Þeir fréttamenn sem ekki skilja muninn á lögbanni og lögum eiga á að finna sér önnur störf, eða afla sér fróðleiks um þessi grundvallaratriði. Lögbann hefur ekkert með lagasetningu að gera. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þessi rangfærsla heyrist í okkar ágæta Ríkisútvarpi og hefur áður verið nefnt í Molum.

 

Í morgunþætti Bylgjunnar (16.05.2014) sagði fréttamaður, sem stundum kemst undarlega að orði: Hingað liggja allar áttir! Í morgunþætti Rásar tvö sama dag heyrði Molaskrifari ekki betur en umsjónarmaður segði undirbúning hafa miðað vel. Undirbúningi hefur miðað vel.

 

Hvernig vagn er spurningavagn sem fréttamaður talaði um hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á föstudag (16.05.2014)?  Er þetta kannski  spurningalisti? Veit málfarsráðunautur svarið?

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>