Trausti Harðarson benti á eftirfarandi (17.05.2014):
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/05/17/enginn_lytalaeknir_skiladi_inn/
„Embætti landlæknis hafði borist gögn frá nokkrum læknum í gær“
Hér höfðu gögnin borist. Embætti landlæknis hafði ekkert færst úr stað.
Því er setningin rétt þannig:
Embætti landlæknis höfðu borist gögn frá nokkrum læknum í gær.
Eða:
Gögn frá nokkrum læknum höfðu borist
embætti landlæknis í gær.” Hárrétt, Trausti. Þakka á bendinguna.
Útvarpshlustandi hafði samband (17.05.2014) og sagði: ,,Fréttastofa Ríkisútvarpsins er búin að klifa á því síðan snemma í morgun að Sauðárkróksvöllur sé ekki í leikástandi. Getur þú ekki gert athugasemd við þetta málfar á síðu þinni?” Það er hér með gert og þakkað fyrir ábendinguna. Sennilega þarf að ráða fleiri málfarsráðunauta að Ríkisútvarpinu. Einn gæti helgað sig íþróttadeildinni sérstaklega. Hún er sennilega að verða álíka mikil að vöxtum og fréttastofan.
Sjaldgæft er að sjá málvillur eða ambögur í Kjarnanum. Í nýjasta Kjarna (15.05.2014) er þessi myndatexti:,,Guðrún Johnsen segir að raunveruleg hætta sé á að þátttaka í umræðu hafi áhrif á stöðu viðkomandi sem fræðimaður”. Hér er fallafælni á ferð, – kvilli sem er að vera býsna algengur. Lok þessarar setningar hefðu átt á vera: ,, …. hafi áhrif á stöðu viðkomandi sem fræðimanns”.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (16.05.2014) tók íþróttafréttamaður þannig til orða , að fimm hundruð manns hefðu verið á höfninni þegar sigurlið Eyjamanna í handknattleik kom með Herjólfi. Molaskrifara hefði þótt betra orðalag að segja, að fimm hundruð manns hefðu verið á bryggjunni.
Í veðurfréttum Ríkissjónvarps /16.05.2014) var okkur sagt frá veðri í Færeyjum. Þar hefði verið hvasst og loka hefði þurft einni flugbraut sökum ókyrrðar. Í Færeyjum er bara einn flugvöllur, í Vágum, og þar er bara ein flugbraut. Þar getur hinsvegar verið mikil ókyrrð. Raunar sú mesta sem Molaskrifari hefur nokkru sinni upplifað um borð í flugvél á nokkuð löngum ferðaferli. Í þeirri flugferð þar sem mest gekk á voru tveir Nígeríumenn meðal farþegar. Þeir voru eiginlega hvítir í framan þegar gengið var frá borði og inn í flugstöðina, sem er hundrað sinnum glæsilegri en sú sem boðið er upp á í höfuðborg Íslands!
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar