«

»

Molar um málfar og miðla 1473

 

Helgarvaktarvilla á vef Ríkisútvarpsins (18.05.2014): ,,Vefurinn leidretting.is hefur verið opnuð og þar er meðal annars hægt að skoða kynningarmyndband um hvernig eigi að sækja um skuldaleiðréttingu”. Hér ætti að standa:,, Vefurinn leidretting.is hefur verið opnaður … .

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (17.05.2014) var sagt: ,, … sem situr á forsetastól”. Eðlilegra hefði hér, að mati Molaskrifara, verið að segja: ,, … sem situr á forsetastóli”.

 

Venjur hafa skapast í fjölmiðlum um framburð sumra erlendra staðaheita. Þannig tölum við um Edinborg, en notum ekki framburð heimamanna, sem er nálægt því að vera /edenborro/. Enska hafnarborgin borgin hefur ævinlega verið kölluð /húll/. Nú heyrist oft, einkum í íþróttafréttum, að heiti borgarinnar er borið fram eins og gert er á ensku /höll/. Það er auðvitað ekkert rangt við það, þótt málvenja hér hafi til þessa verið önnur.

 

Í viðtali við bæjarstjórann í Garðabæ á mbl.is (17.05,.2014) sagði: ,,Þetta er allt að ganga eft­ir, seg­ir Gunn­ar en fyrr í mánuðinum var vígður bíla­kjall­ari und­ir svæðinu sem hýs­ir 135 bíla.” Þess var ekki getið hvaða prestur hefði ,,vígt” bílakjallarann. Auðvitað var kjallarinn ekki vígður, heldur tekinn í notkun eða opnaður.

 

Það á að vera föst regla hjá Ríkisútvarpinu að segja okkur ekki alltaf hvort um endurflutning/ endursýningu á efni sé að ræða. Eins og er, virðist það með höppum og glöppum hvort þetta kemur fram.

 

Útvarpshlustandi spyr (18.05.2014): ,Hvar er borgin „Súrigh“ ? Fréttamaður Ríkisútvarsins sagði rétt í þessu að borgin væri í Sviss. Tel mig sæmilegan í landafræði og kannast ekkert við borg þar í landi með þessu nafni. (Hádegisfréttir 18. maí 2014).” Sennilega viðvaningur á helgarvakt. Enginn til staðar til að veita leiðsögn. Ekki nýtt af nálinni.

 

Ekki kann Molaskrifari að meta orðalagið , ,,dálítil væta gæti verið að falla”, sem stundum heyrist í veðurfréttum Stöðvar tvö (18.05.2014).

Það er skrítið að Ríkisútvarpið skuli ekki sjá til þess að þeir sem lesa fréttir séu sæmilega áheyrilegir. Í erlendum stöðvum heyrir maður ekki óþægilega skræka  eða mjóróma fréttalesara.  Það fer ekki af sjálfu sér saman að vera góður fréttamaður og áheyrilegur þulur. Þarna á fréttastjóri auðvitað að taka af skarið.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>