«

»

Molar um málfar og miðla 1476

Prýðileg umfjöllun Kastljóss um hlunnindaklerka á miðvikudagskvöld (21.05.2014). Þetta var raunveruleg rannsóknarblaðamennska. Greinilegt að mikil vinna hefur verið lögð í upplýsingaöflun og vinnslu myndefnis. Jóhannes Kr. Kristjánsson á heiður skilinn.

Ótrúlegar tölur sem þarna voru nefndar. Lofsvert að biskup skuli ætla að endurskoða þetta gamla, úrelta og rotna kerfi. Agnes biskup mun mæta harðri andstöðu, trúir Molaskrifari, frá laxa- og dúnklerkum. Hér má hinsvegar ekki láta deigan sígan. Þetta eru gamlar ranglætisleifar sem ber að uppræta. Tölur um tekjur af þessum hlunnindum hljómuðu ekki allar trúlega í eyrum Molaskrifara.

En dettur einhverjum í hug að hlunnindaprestar gjaldi ekki keisaranum það sem keisarans er og guði það sem guðs er? Auðvitað ekki.

 

Trausti sendi Molum línu og sagði: ,,Þetta stingur í augu”: ,,Jarðskjálfti upp á 6,0 átti sér stað á Beng­al-flóa út af aust­ur­strönd Ind­lands í dagum klukk­an 16:20.” Af mbl.is (21.05.2014).Einnig af mbl.is sama dag: ,,Einn var með all­ar töl­ur rétt­ar í Vík­ingalottó­inu og fær því fyrsta vinn­ing óskipt­an en vinn­ing­ur­inn hljóðar upp á hvorki meira né minna en 1.152.366.140 krón­ur”. Molaskrifari þakkar ábendinguna. Mikið hljóðað á mbl.is þennan dag !

 

Af visir.is (21.05.2014) Vesturport hlaut tvö verðlaun á hinum vertu Elliot Norton Awards í gær. Þetta var lagfært síðar og réttilega sagt að Vesturport hefði hlotið tvenn verðlaun. Kannski var eitt af fréttabörnunum,sem svo eru stundum nefnd, á vaktinni.

 

Á þriðjudagskvöld (20.05.2014) sá Molaskrifari síðari hluta heimildamyndar í norska sjónvarpinu (NRK2) um umsvif Kínverja í námarekstri og málmvinnslu í Afríku. Myndin hét ,,Kínverjarnir koma”. Molaskrifari sá ekki betur en hún væri gerð á vegum BBC. Ríkissjónvarpið kaupir mikið af efni frá BBC, en það takmarkast eiginlega alveg við dýralífsmyndir. Þær eru fínar, en einhæfur kostur. Þessi mynd um framsókn Kínverja utan Kína á erindi við okkur.

 

Rangt var farið með nafn Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra og stjórnarformanns Icelandair í tíu fréttum Ríkisútvarps (22.05.2014). Ekki leiðrétt. Fréttamenn eiga að geta farið rétt nöfn forystumanna í atvinnulífinu. Enn einu sinni: Enginn lesið yfir áður en lesið er yfir okkur.

 

Fótboltamót. Mesta veisla í heimi, segir Ríkissjónvarpið. Veruleikafirring hins ofur sjálfhverfa íþróttaheims.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>