«

»

Molar um málfar og miðla 1480

 

Úrslit kosninganna eru varhugaverð, sagði fréttamaður Stöðvar tvö (26.05.2014). Ekki samræmist það orðalag málkennd Molaaskrifara. Fréttamaðurinn átti væntanlega við að úrslit kosninganna væru áhyggjuefni. Baldur Þórhallsson prófessor, sem rætt var við í fréttatímanum, talaði um varhugaverða þróun. Það er gott og gilt orðalag.

 

Úr frétt á visir.is (26.05.2014): ,Mengun í landinu hefur mikið verið milli tannanna á fólki í kjölfar hinnar miklu iðnaðaruppbyggingar sem hefur orðið í landinu á undanförnum árum”. Það er reyndar fleira skrautlegt í þessari frétt! http://www.visir.is/kinverjar-faekka-bilum-til-ad-sporna-vid-mengun/article/2014140529160

 

Sífellt tala fréttamenn Ríkissjónvarps um íþróttapakka, – í merkingunni íþróttafréttir. Það koma pakkar á hverju kvöldi í fréttum Ríkissjónvarps. Við erum með þéttan íþróttapakka, sagði íþróttafréttamaður Ríkissjónvarps á mánudagskvöld (26.05.2014). Hvað í ósköpunum er þéttur íþróttapakki?

 

Utanaðlærðar framboðsræður eins og dengt er yfir áhorfendur í fréttatímum Ríkissjónvarps þessa dagana eiga ekkert erindi í fréttatímana. Þetta eru ekki fréttir.

 

Huga þarf að orðavali. Í fréttum Stöðvar tvö (27.05.2014) var talað um að láta mál aðgerðalaus. Það finnst Molaskrifara hálfgerð merkingarleysa. Átt var við að láta mál afskiptalaus.

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (27.05.2014) var sagt, – þær eru ekki vongóðar á … vel má vera að hjá einhverjum sé viðtekin venja að taka svo til orða, en Molaskrifari hefði sagt: , – ekki vongóðar um …

 

Það verður fróðlegt að hlusta á samtal fréttamanns og fréttaþular NBC , Brians Williams, við Edward Snowden uppljóstrara. Brian las ekki fréttir nokkur kvöld í röð í liðinni viku. Áhorfendum var sagt að hann væri í fréttaleiðangri. ( Brian is away on an assignment). Hann var sem sé í Moskvu. Vonandi hefur Ríkissjónvarpið döngun í sér til að fá sýningarrétt að þessu efni. Það er umhugsunarefni að enginn virðist sinna erlendum fréttum  hjá Ríkisútvarpinu nema Bogi Ágústsson. Hann stendur sig vel. Umfjöllun um erlend málefni er minni í Ríkissjónvarpinu um þessar mundir en þegar það tók til starfa fyrir nær hálfri öld. Það er vegna þess að þar hafa stjórnendur svo lengi haft asklok fyrir himin. http://www.ruv.is/frett/snowden-segist-hafa-starfad-sem-njosnari Um erlendar fréttir á Stöð tvö þarf ekki að ræða.

 

Ýmsir undrast hvað Mænuskaðastofnum Íslands ver miklum fjármunum í sjónvarpsauglýsingar um þessar mundir og til að hæla einum stjórnmálamanni sérstaklega. Svona stofnanir eiga að vera utan við pólitík. Löng auglýsing frá stofnuninni var birt tvisvar í Ríkissjónvarpinu á þriðjudagskvöld (27.05.2014).

 

Konuröddin sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins segir okkur frá þættinum Í garðinum hjá Gurrý. Þátturinn heitir Í garðinum með Gurrý. Smáatriðin verða líka að vera rétt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>