«

»

Molar um málfar og miðla 1481

 

Glöggur lesandi benti Molaskrifara á þessa fyrirsögn á visir.is (27.05.2014): Vísbending um aukin umsvif skattsvika. Þetta er út í hött. Skattsvik hafa ekki umsvif. Tala mætti um aukin skattsvik, aukið umfang skattsvika. Ekki aukin umsvif. http://www.visir.is/visbending-um-aukin-umsvif-skattsvika/article/2014140528976

 

Af mbl.is (25.05.2014): ,,Lax­mýr­ing­ar sáu fyrsta lax­inn við staur­inn í Kistu­kvisl í dag. Þar sjást venju­lega þeir fyrstu sem ganga í ánna.” .. sem ganga í ána, ætti þetta auðvitað að vera. Kistukvísl. http://www.mbl.is/veidi/frettir/2014/05/25/laxinn_maettur_i_laxa_i_adaldal/

 

Veðurfréttamenn Stöðvar tvö þurfa sumir hverjir að venja sig af því að flytja áherslu yfir á síðari hluta orða. Í íslensku er áhersla jafnan á fyrsta atkvæði. Það á ekki að tala um SuðurLANDIÐ, né austurSTRÖNDINA. Hvimleitt að hlusta á þetta. Hefur verið nefnt hér áður.

 

Hér hefur stundum verið beint spurningum til Ríkisútvarpsins. Svör hafa aldrei borist. En einu sinni skal þó reynt: Hvernig stendur á því að ekki eru allir fréttatímar Ríkisútvarpsins aðgengilegir á dagskrárvef þess? Er einhver kostnaður slíkri birtingu samfara?

 

Vikið var að því í Molum (1480) að konuröddin, niðursoðna,sem kynnir dagskrá Ríkissjónvarpsins, færi ekki rétt með nafn garðyrkjuþáttarins, Í garðinum með Gurrý. Það gerðist ekki einu sinni. Það gerðist  kvöld eftir kvöld. Hvað veldur?  Ætlast verður til þess að konan viti hvað þættirnir, sem hún er að kynna, heiti.

 

Kastljósi Ríkissjónvarpsins má þakka marga góða spretti í vetur. Kastljóssfólk kvaddi með kurt og pí í síðasta þætti (28.05.2014) Hversvegna er ekki hægt að hafa Kastljósið áfram á dagskrá í sumar? Ekki þurfa menn sumarfrí alveg fram á haust, – eða hvað?

 

Í fréttum á miðvikudagskvöld fengu áhorfendur Ríkissjónvarps enn eina útgáfu af íþróttapakkabullinu. Þá var talað um töluvert þéttan íþróttapakka! Hvar endar þetta?

 

Loks skal hér  vitnað í skrif sviðsstjóra menningar og og ferðamála hjá Reykjavíkurborg á fésbók (28.05.2014): En bottomlænið er bara þetta: Kids: komið fram við ALLA aðra eins og þið viljið að ALLIR aðrir komi fram við mömmu ykkar…!  Sviðsstjórinn var að verja ummæli oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík um úthlutun lóðar undir mosku í höfuðborginni.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>