«

»

Molar um málfar og miðla 1482

 

Af pressan.is (28.05.2014): ,,Eru skrif Björns mjög í anda þess sem Morgunblaðið hefur sagt í forystugreinum sínum að undanförnu og er greinilegt að ýmsir úr hópi fyrrverandi forystumanna Sjálfstæðisflokksins finnst lítt til kosningabaráttu Sjálfstæðisflokksins í borginni koma að þessu sinni”. Hér er vankunnátta á ferð, – enn einu sinni. Hér ætti að standa : … er greinilegt að ýmsum úr hópi fyrrverandi forystumanna Sjálfstæðisflokksins ….

 

Í kvöldfréttum Stöðvar tvö á föstudagskvöld (30.05.2014) töluðu fréttaþulur, fréttamaður og fulltrúi Arion banka allir um að ganga ekki á eftir þeim sem gerðu tilboð í hlutabréf í Granda, en stóðu ekki við tilboðin. Þetta var hæpið orðalag að dómi Molaskrifara. Að ganga á eftir einhverjum er þrábiðja einhvern um eitthvað. Þarna hefði átt að tala um að ganga eftir því við þá, sem tilboðin gerðu, að þeir stæðu við þau. Fá þá til að standa við tilboðin. Krefjast þess að þeir stæðu við tilboðin. Þetta hefur svo sem heyrst áður.

 

,,Öll sú undirbúningsvinna sem þarf að fara fram er að mestu leyti lokið og þess vegna geta framkvæmdir hafist mjög fljótlega”. Þetta sagði þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins á föstudag (30.05.2014). Öll sú undirbúningsvinna …  er ekki lokið, heldur er allri þeirri undirbúningsvinnu ekki lokið.

 

Á baksíðu Morgunblaðsins (29.05.2014) er lítil frétt um sýningu á verkum Karólínu Lárusdóttur listmálara í Duushúsunum í Keflavík,sem nú heitir víst Reykjanesbær. Fréttinni fylgir mynd af málverk,i sem sagt er að heiti Guðmundur kemur með matinn heim. Molaskrifari veltir því fyrir sér hvort myndin heiti ekki: Geirmundur kemur með matinn heim. Í bókinni Karólína eftir Jónínu Michaelsdóttur (1993) segir svo á bls.78: ,,Geirmundur bílstjóri í Feldinum kom á hverjum degi og sótti pottana sem staflað var hverjum ofan á annan eftir stærð. …. þannig hélt Geirmundur á öllum pottunum í einu, fór með þá niður á Hótel Borg og náði í matinn, sem mamma var búin að panta eftir að hafa fengið upplýsingar um hvað væri á matseðlinum og kom með pottana heim” . Lárus, faðir Karólínu átti fyrirtækið Feldinn og afi hennar, Jóhannes, átti Hótel Borg. Geirmundur var Jónsson, frá Lækjarbotnum í Landssveit.

Karólína er einn af okkar fremstu listmálurum. Hennar er að engu getið í fimm binda verki um íslenska myndlist sem kom út fyrir nokkrum árum. Það er ritstjórum þess verks til ævarandi skammar og háðungar. Þröngsýni og klíkuskapur hafa sennilega ráðið mestu þar um.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>