Það hefur alveg gleymst að segja dagskrárstjórum Ríkissjónvarpsins frá því að í dag (06.06.2014) eru sjötíu ár liðin frá innrásinni í Normandí. Innrásin var heimssögulegur atburður, vatnaskil í seinni heimsstyrjöldinni. Það er eins og enginn í hópi dagskrárstjóra Ríkisútvarpsins viti neitt eða vilji neitt vita um söguna. En því betur eru menn að sér um íþróttir. – Það gerðist nefnilega sitt af hverju áður en þetta ágæta fólk var í heiminn borið. Þetta hefur þó verið nefnt í fréttum.
Þórhallur Jósepsson skrifaði (05.06.2014) undir fyrirsögninni: Ekki fer Netmogga fram! Hann segir: ,,Mér hnykkti við að sjá þennan ótrúlega texta á mbl.is í morgun. http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/06/04/telur_sig_hafa_sed_thotuna_alelda/
Þarna eru held ég flestar tegundir mistaka og subbuskapar í textagerð og ótrúlega margar villurnar. Hér eru aðeins fáein dæmi:
„Á sama tíma er nú rannsakað hvort…“ Klaufalega orðað. betra væri annað hvort: „Um leið …“ eða „Einnig er …“
„… þar sem hljóðmerkið getur alveg eins hafa komið frá… “ Betra væri „… þar sem hljóðmerkið gæti hafa komið frá …“
„… var sofandi inn í bát…“ og stuttu síðar aftur sama.
„… eða það er það sem mér sýndist ég sjá …“ Þarna dugir vel: “ … eða svo sýndist mér ..“
Af mörgu fleira er að taka í þessari grein, en læt þessi dæmi nægja hér. Vinnubrögðin eru heldur dapurleg hjá mbl.is fólki, ekkert síður þótt þessi texti hafi að mestu verið afritaður að vefnum sem vitnað er til, það afsakar ekki þetta yfirþyrmandi kæruleysi að láta svona subbuskap frá sér fara.” Molaskrifari þakkar Þórhalli bréfið.
Skortur á viðbrögðum megi túlka sem mikla stefnubreytingu hjá flokknum, las fréttaþulur Stöðvar allsendis óhikað í fréttum á miðvikudagskvöld (04.06.2014) . Furðulegt hjá reyndum fréttamanni og alvönum lesara að heyra ekki villuna. Þetta hefði átt að vera: Skort á viðbrögðum megi túlka sem mikla stefnubreytingu ….
,,Gæludýrin eru yndisleg og við gröfum þeim”. Þannig var til orða tekið í neðanmálstexta með erlendri frétt í Ríkissjónvarpinu (04.06.2014).
Í netkynningu á Menningarkorti Reykjavíkur (04.06.2014) segir:
,, Í tilefni af sameiningar Minjasafns Reykjavíkur (Árbæjarsafn og Landnámssýning), Sjóminjasafns Reykjavíkur, Viðeyjar og Ljósmyndasafns Reykjavíkur undir nýju safni og nafni, Borgarsögusafn Reykjavíkur, bjóðum við fyrrum handhöfum Menningarkortsins 1000 kr. afslátt af endurnýjun á kortinu í júní.” Hér ætti auðvitað að standa, annað hvort: Í tilefni sameiningar , eða í tilefni af sameiningu …. Svo er svolítið skrítið orðalag að segja: … undir nýju safni.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar