Ríkissjónvarpið minntist í gærkveldi (04.006.2014) morðanna á torgi hins himneska friðar í Peking fyrir aldarfjórðungi með því að sýna okkur heimildamynd um suður amerískar fegurðardrottningar. Það segir meira en mörg orð um dagskrárstjórnina og meðvitundina í Efstaleiti.
Enginn veit í raun og veru hve marga friðsama mótmælendur kommunistastjórnin í Kína lét myrða með köldu blóði þessa daga fyrir 25 árum. Greinargóða frásögn af þessum atburðum er til dæmis að finna í bókinni China Wakes, en hana skrifuðu hjónin Nicholas D. Kristof (margverðlaunaður blaðamaður New York Times) og Sheryl Wudunn en þau voru í Peking þegar þetta gerðist.
Lesandi bendir á þetta á mbl.is (03.06.2014): „Vegna frétta kvöldsins er sjálfsagt að greina frá því að eini þrýstingurinn sem ég finn fyrir er í hnéinu. Það er vegna aðgerðar sem ég fór í fyrir nokkrum vikum,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni. Vitnað mun hafa verið í þessa færslu fjármálaráðherrans á fleiri fréttasíðum. Sá sem á þetta benti segir einnig: ,, Segið svo að það hafi verið vel við hæfi að fela þessum höfundi umsjá með ,,ríkisféinu“. Hann ræður a.m.k. ekki við stafsetninguna – hvað sem öðru líður.” Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Karl Björnsson skrifaði athugasemd (03.06.2014) og spurði hvort Molaskrifari væri ekki orðinn þreyttur á að skrifa sem hrópandinn í eyðimörkinni? Svarið er : Nei. ekki enn. Karl segir líka í athugasemd sinni: ,, Ég held þetta sé tapað mál, þ.e. íslenskan, og þú hlýtur að verða orðinn þreyttur á að hrópa einsamall í eyðimörkinni.
Leiðinlegt fólk talar leiðinlegt mál og það er lítið við því að gera. Íslendingar eru orðnir skelfilega leiðinlegir.
Hér koma nokkur dæmi:
Hvað er að gerast á helginni. Atkvæðið þitt skiftir máli. Þú getur hlustað á tónlistina þína á vefnum okkar. Þú getur greitt reikningana þína í einkabankanum þínum.
Stanslaust vella fram eignarfornöfn og ákveðinn greinir af krafti landans… allt svo yfirmáta hjartnæmt að slepjulegur innileikinn lekur af hverju orði. Ég hef heyrt veðurfræðinga Sjónvarpsins prjóna, „ hjá okkur“ eða „á landinu okkar“, aftan í hverja einustu setningu og nota ákveðinn greini á alla landshluta, t.d. á Vestfjörðunum. Það er einhver vemmileg tilfinningavæðing í gangi… einhverskonar Polliönu disneyfication.
Engu líkara en að menn gleypi í sig gagnrýnislaust allt auglýsingaskrumið, þar sem fyrst og fremst er höfðað til sjálhverfu og barnalegrar eigingirni … allt er fyrir þig og til þín –ad infinitum
Sumir viðtalsþættir slá öll met. Dæmi eftir minni: Vilt þú sjá draumana þína rætast , spurði konan. Söngkonan svaraði og sagði, að hún vildi gjarnan láta heyra í röddinni á sér.
Hvernig er lífið þitt í New York?
Og er einhvertíma sem þú efast um verkin þín?
Allt fyrir þig og vinnustaðinn þinn, kosningarnar eru fyrir þig… þínar kosningar og atkvæðið þitt. Og mjólkin þín er með öll næringarefnin sín og svo er það barnastarfið í kirkjunni þinni…
Ég væri mun sáttari við að fólk hætti að beygja nafnorð. Það er mun eðlileg þróun tungumálsins en þessi vitleysa”. Molaskrifari þakkar Karli bréfið.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar