«

»

Molar um málfar og miðla 1500

K.Þ. skrifaði (20.06.2014): Hann segir: ,, Þær eru margar bólurnar!” K.Þ. vekur athygli á þessari frétt á dv.is :

https://www.dv.is/lifsstill/2014/6/20/gunnhildur-tekst-vid-mannskaedan-e-bolufaraldur-R4FLUF/

Og segir: ,,Þetta er athyglisverður ritháttur á erlendu heiti smitsjúkdóms”. – Veiran sem veldur þessum sjúkdómi heitir ebola-veira. Ekki sjálfgefið að það beygist eins og íslenska orðið bóla. – Þakka bréfið.

 

Kjarninn (44. útgáfa) sagði frá komu SDG á Austurvöll 17. júní: ,, …. og flýtti sér inn um þegar lokaðar dyrnar”. Það hefði Molaskrifari viljað sjá!

 

Seinni fréttir Ríkissjónvarps hófust ekki á venjulegum, auglýstum, tíma í gærkveldi (23.06.2016). Knattspyrnuleik sem sendur var út beint lauk vel fyrir klukkan 22 00. Þessvegna hefði verið hægt að hefja fréttir stundvíslega á auglýstum tíma í prentaðri dagskrá. Það þurfti hinsvegar að koma að tuttugu mínútna   fótboltafjasi. Þeir sem vildu heyra fréttir urðu bara að bíða. Á netinu var búið að seinka fréttum til klukkan 22 15, en það var ekki einu sinni hægt að standa við það. Fréttaþulur tók  fram, loks er fréttir  hófust,  að þær væru með seinni skipunum vegna knattspyrnuleiks. Það var rangt. Leiknum lauk fyrir klukkan 2200.  Ekki sá Molaskrifari seinkunina tilkynnta með skjáborða. Kannski ráða menn ekki við þá tækni. Það gera þær sjónvarpsstöðvar, sem sýna viðskiptavinum sínum sæmilega kurteisi. Þetta var venjubundinn yfirgangur íþróttadeildar. Fótbolti hefur forgang í fótboltasjónvarpi ríkisins. Hversvegna mátti ekki senda þetta innihaldslitla fjas um nánast ekki neitt út á íþróttarásinni og láta auglýsta dagskrá halda sér ?

 

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins á sunnudag (22.06.2014) var skrifað af skilningi um þann vágest sem Alzheimer-sjúkdómurinn er. Margir þakka þau skrif. Molaskrifari er einn þeirra.

 

Í Morgunblaðinu á laugardag (21.06.2014) var skemmtilegur pistill , Málið: Fallegt mál, eftir Evu S. Ólafsdóttur. Hún ræðir meðal annars um þýðingar á heitum sjónvarpsþátta og nefnir Aðþrengdar eiginkonur, Desperate Housewives. Molaskrifari nefnir að betri þýðingu lagði Sigurður Hreiðar, sem lengi var blaðamaður, til fyrir nokkuð löngu. Hann vildi kalla þáttinn Hamslausar húsmæður. Það er raunar miklu betri þýðing en Aðþrengdar húsmæður. Réttilega nefnir Eva vond þáttanöfn, sem Molaskrifari hefur reyndar einnig nefnt, oft meira að segja- Ísland got talent og The Biggest Loser Ísland. Þessi þáttaheiti erum öllum hlutaðeigandi til skammar. Á einhverri norrænu stöðinni er nú verið að endursýna fyrstu svarthvítu þættina af Upstairs, Downstairs (1971- 1975) sem nutu fádæma vinsælda. Á íslensku voru þeir kallaðir Húsbændur og hjú, sem er fínt nafn. Danska heitið er líka gott. Herskab og tjenestefolk.

Nú er löngu hætt að þýða kvikmyndaheiti eins og ævinlega var gert í gamla daga. Góð þýðing á kvikmyndaheiti var til dæmis nafn myndarinnar On the Waterfront, sem var áttföld Óskarsverðlaunamynd með Marlon Brando í aðalhlutverki og var sýnd í Stjörnubíói. Á íslensku hét myndin Á eyrinni. Mig hefur alltaf grunað að Árni Böðvarsson, orðabókarhöfundur og seinna málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins hafi gefið myndinni þetta nafn. Mig minnir að Árni hafi gert það í hjáverkum að þýða ,,prógrömmin” efnisútdrættina sem voru seldir sem tvíblöðungar á öllum bíósýningum í gamla daga. Nær allir keyptu ,,prógramm”. Ágústa kona Árna var náskyld Hjalta Lýðssyni sem átti Stjörnubíó. Þau voru systkinabörn, muni Molaskrifari rétt, en nú er hann líklega kominn út fyrir efni þessar fimmtán hundruðasta Molapistils!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Sammála í einu og öllu.

  2. Kristján skrifar:

    Já, fréttatíminn kl.22:00 átti auðvitað að hefjast kl.22:00 á RÚV í gærkvöld. Þetta finnst mér vera dómgreindarleysi.

    Ég fylgist að mestu með HM á erlendu stöðvunum. Þar er oft meira sýnt frá áhorfendapöllum í hálfleik en mun minna mas, og fáar eða jafnvel engar auglýsingar.

    Hjá RÚV er m.a.s. boðið upp á skjáauglýsingar í hálfleik. Svo á eftir að blaðra og blaðra áður en skipt er yfir á leikvanginn sjálfan. Ég held að flestir hefðu meiri ánægju af því að fylgast með stuðinu í stúkunni en tuðinu í stúdíóinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>