«

»

Molar um málfar og miðla 1499

Reyndur blaðamaður sendi Molaskrifara línu (19.06.2014) og sagði: ,,Þú mátt gjarnan víkja að því í pistlunum þínum að þegar verið er að taka byggingar og slíkt í notkun er talað um vígslu. Þetta er meinloka, það getur enginn vígt neitt, nema prestur sem er vígður. Veraldlegar verur vígja ekki neitt.” Þetta hárrétt. Þetta var eitt af því sem fyrsti fréttastjóri Sjónvarpsins, séra Emil Björnsson lagði ríka áherslu á að við sem þar störfuðum færum rétt með. Nú má líklega taka undir með Torfa Erlendssyni nábúa séra Hallgríms Pétursson á Stafnesi, sem á að hafa sagt , þegar Hallgrímur tók prestsvígslu: „Allan andskotann vígja þeir”. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

Svona til að undirstrika þetta, sagði landbúnaðarráðherra í fréttum Stöðvar tvö í gærkveldi (22.06.2014): ,, Ég fékk það hlutverk að klippa á borðann og vígja þessa styrkingu innviðanna í sauðfjárrækt …” Verið var ljúka endurbyggingu réttar. Þarna var ekkert vígt. Sagt var að séra Hjálmar Jónsson hefði blessað réttina. Það er annar handleggur. Landbúnaðarráðherra er ekki vígður maður. Hann getur ekkert og engan vígt. Orðalagið var út í hött.

 

Það er orðið svo algengt að heyra beygingarvillur, innbyrðis málfræðilegt misræmi í setningum, í fréttum margra fjölmiðla að það mundi æra óstöðugan að telja það allt upp.

Ríkisútvarpið er eini fjölmiðillinn þar sem starfar sérstakur málfarsráðunautur, en starfa hans sér því miður ekki mikinn stað. Hinir nýju stjórnendur Ríkisútvarpsins, útvarpsstjóri og fréttastjóri eiga að hafa metnað til að gera betur.

 

Auglýsingastofur ráða málfari í auglýsingum. Enskuslettum í auglýsingum fer fjölgandi. Hrært er saman íslensku og ensku. Í Fréttablaðinu (20.06.2014) er heilsíðuauglýsing frá fyrirtæki sem kallar sig Culiacan. Þar segir: Hættu í megrun vertu fit. Orðið fit er ekki íslenska. Það er enska. Keep fit, vertu í góðri þjálfun , í góðu formi.

 

Í myndatexta í DV (20.-23.06.2014) segir, að skip sem var selt hafi skipt um hendur. Molaskrifari vissi ekki að skip hefðu hendur og enn síður að skip gætu skipt um hendur!

 

Í fréttum Stöðvar tvö (19.06.2014) var sagt: ,, … kvað innanríkisráðherra sér hljóðs ..”. Ráðherrann kvað sér ekki hljóðs. Ráðherrann kvaddi sér hljóðs.

 

Í kynningu á dagskrá Ríkisútvarpsins (20.06.2014) var aftur og aftur talað um að gera tónlist. Er það að flytja tónlist eða semja tónlist?

 

Mbl.is sagði okkur á föstudag frá kúm í lausagangi (http://www.mbl.is/sport/frettir/2014/06/20/kyr_i_lausagangi_a_kastsvaedinu_myndband/). Fyrirsögnin var: Kýr í lausagangi á kastsvæðinu, – svæði þar sem verið að keppa í sleggjukasti. Í fréttinni segir: ,, Á meðfylgj­andi mynd­skeiði sem Óðinn Björn tók upp á sím­ann sinn má sjá kýr í lausa­gangi og ým­is­legt fleira áhuga­vert sem menn eiga ekki að venj­ast á kast­svæðum frjálsíþrótta­valla”. Fréttabarnið á mbl.is sem þarna var að verki greinir ekki milli lausagangs , þegar bílvél er í gangi en bíllinn stendur kyrr, og lausagöngu, – þegar gripir ganga á ógirtu landi, utan girðinga! Það léttir lundina að lesa svona !

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>