Fyrrum kollega í fréttamannastétt skrifaði (17.06.2014):,, Sæll félagi. Þó að mig gruni að þú sért lítið gefinn fyrir fótbolta, langar mig sem ,,fótboltabullu” að senda þér línu fyrir fjölmiðlapistilinn:
Það er með ólíkindum hve HM lýsendur Ríkisútvarpsins eru ófagmannlegir. Þeir eru stöðugt að segja áhorfendum hvað þeir sjá á skjánum í stað þess að vinna eins og fagmenn og koma með stoðupplýsingar sem fylla upp í myndina. Þeir ættu að kanna hvernig þýskir og enskir lýsendur vinna. Eða bara að hlusta á gamlar lýsingar með vini okkar Bjarna Fel. Þessir piltar eru svo þreytandi (undanskil Einar Örn Jónsson) að maður leitar á erlendu stöðvarnar fremur en að hlusta á blaðrið.
PS: Það er eins og þeir séu að lýsa í útvarp, eða fyrir blint fólk.
Samtali lokið!”
Molaskrifari játar að hann fylgist illa með fótboltaútsendingum sem Ríkisfjölmiðillinn hefur verið lagður undir nær nótt sem nýtan dag og dagskrá öll sett úr skorðum. Ef Molaskrifari horfir, hneigist hann fremur að breskum stöðvum. Ríkisútvarpið hefur nefnilega tekið sér rétt til að brjóta þann samning sem ég hef gert við Símann til að horfa á norrænu stöðvarnar. Þar er lás á boltanum. Mér skilst að þeir sem verða fyrir barðinu á Ríkisútvarpinu með þessum hætti, geti ekkert sagt, bara verið súrir! Molaskrifari þykist þó vita að mikið sé til í því sem þessi fyrrverandi starfsfélagi segir. Fleiri hafa haft orð á þessu. Kærar þakkir fyrir bréfið.
Góðvinur Molanna skrifaði (18.06.2014) : ,,Má til með að vekja athygli á illskiljanlegri forsíðufyrirsögn Fréttablaðsins í morgun:
,TUGIR ÍSLENDINGA SNÚA ALDREI AFTUR EFTIR VINNUSLYS ÁR HVERT.
Þarna hefði etv. farið betur að skrifa:
Árlega hverfa tugir Íslendinga frá starfi eftir vinnuslys.
(Sama lengd í bókstöfum – eða styttri.) “ Molaskrifari er sammála og þakkar línurnar.
Lesandi (harri) skrifaði:,, Vef Ríkisútvarpsins tókst að vera með málvillu í fyrirsögn íþróttafréttar í vikunni. Fyrirsögnin var: Bandaríkin aftur komnir yfir gegn Ghana.” Molaskrifari þakkar ábendinguna.
http://www.ruv.is/frett/bandarikin-aftur-komnir-yfir-gegn-ghana
Haukur benti Molaskrifari á ótrúlega fyrirsögn á vef dv.is: (18.6.14).
„Schumacher lést mikið – gat kinkað kolli og opnað augun.“
http://www.dv.is/frettir/2014/6/18/schumacher-lest-mikid-gat-kinkad-kolli-og-opnad-augun/ – Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Í morgunfréttum Ríkisútvarps (20.06.2014) var sagt: Kólombía vann leik Fílabeinsstrandarinnar ??? Hafði ekki Kólombía betur í boltaleik gegn Fílabeinsströndinni. Ekki vandað orðalag.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
1 athugasemd
Ekkert ping ennþá
Jón skrifar:
22/06/2014 at 14:45 (UTC 0)
Ég ætlaði að hlusta á þátt um Jón Helgason prófessor, Af minnisstæðu fólki, og varð nokkuð hissa.
http://dagskra.ruv.is/nanar/18855/