«

»

Molar um málfar og miðla 1512

 

K.Þ. benti á eftirfarandi úr Viðskiptablaðinu (06.07.2014):

Kennörum skortir sjálfum þekkingu og hæfni til að kenna fjármálalæsi.

Fjármálalæsi unglinga í íslenskum grunnskólum er lítið og þeir hafa litla verðvitund. Það bitnar á getu þeirra til að taka skynsamar ákvarðanir um fjármál þegar þeir eldast. Þetta er meðal niðurstaðna í lokaverkefni Klöru Guðbrandsdóttur við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri.” Hann segir: ,,Hann er víða skorturinn. Það þarf greinilega að efla móðurmálskennslu með áherslu á fallbeygingar. Að því loknu mætti svo hefja kennslu í fjármálalæsi.” – Molaskrifari þakkar KÞ ábendinguna. Það er hverju orði sannara að byrja þarf á málfræði móðurmálsins. Hæpið er að tala um skynsamar ákvarðanir. Skynsamlegar ákvarðanir, er betra. Ótrúlegur texti.

 

– Ég mundi segja það, hestlega séð, sagði kona sem rætt var við í kvöldfréttum Ríkisútvarps (05.07.2014) um hestamannamótið á Gaddstaðaflötum við Hellu. Gangtegundalega séð, bætti hún svo við. Karlmaður, sem rætt var við um sama efni daginn eftir lét ekki sitt eftir liggja og sagði: Hesta- og keppendalega séð og mótslega séð. Mikið eru þessi orðskrípi óþarfur samsetningur.

 

Ekki er mikil rækt lögð við vandað málfar í skrifum mbl.is um veiðar í ám og vötnum. Þetta er frá föstudegi (04.07.2014) ,,Álftá á Mýr­um opnaði á þriðju­dag og miðviku­dag nú í vik­unni. Gekk hún ágæt­lega og komu alls 19 fisk­ar á land á tvær stang­ir.” Álftá var opnuð til veiða. Álftá opnaði hvorki eitt né neitt. Þetta virðist fastur ritháttur hjá þeim sem um þessi efni skrifa(r) á vefinn mbl.is. Hvaða hún gekk ágætlega?? Opnunin? Veiðin?

 

Þetta var Vikulokin, sagði þulur í Ríkisútvarpi (05.07.2014), þegar þættinum Vikulokunum lauk um hádegið. Þetta voru Vikulokin, hefði hann betur sagt.

 

Í fréttum Ríkisútvarps á laugardag (05.07.2014) var aftur og aftur talað um að halda ávarp. Molaskrifari hefur vanist því að talað sé um að flytja ávarp, en að halda ræðu.

 

Það er erfitt að tileinka sér þetta með að sigra, vinna sigur. Í fréttum Stöðvar tvö (05.07.2014) var sagt: ,,Gerði sér lítið fyrir og sigraði barnaflokkinn ….” Barnaflokkurinn steinlá!. Svo í hádegisfréttum Bylgjunnar daginn eftir (06.07.2014) var talað um þá sem sigruðu flokk gæðinga með glæsibrag! Þar var líka talað um fóbolta, en sú íþróttagrein heyrist nú orðið sjaldan nefnd, – sem betur fer! Það er eins og stundum vanti vilja til að vanda sig.

Þessar ambögur heyrast líka í Ríkissjónvarpinu. Á sunnudagskvöld sagði spyrill í íþróttaþætti: Þú sigraðir A-flokk !

 

Yndislegt að hafa ykkur , sagði stjórnandi HM stofu svokallaðrar, í Ríkissjónvarpi (05.07.2014) þegar gestir hans höfðu fimbulfambað fram og til baka um leik sem lokið var. Endalaust fjas varð meðal annars til þess að dagskrá Ríkissjónvarps seinkaði um klukkutíma á laugardagskvöld. Vissulega setti framlenging leiks og vítaspyrnukeppni dagskrána úr skorðum. En þá mátti sleppa fótboltafimbulfambinu linnulausa eða flytja það bara í útvarpinu. Sem hefði verið fínt.

 

Í kvöldfréttum Ríkisútvarps (06.07.2014) var vitnað í sænska blaðið Aftenposten. – Aftenposten er norskt dagblað. Við nánari athugun kom í ljós að verið var að vitna í sænska dagblaðið Aftonbladet. Rétt skal vera rétt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>