«

»

Molar um málfar og miðla 1511

Af dv.is (04.07.2014): ,,Mál Justin Ross Harris, föðurs sem ákærður hefur verið fyrir að myrða 22 mánaða gamlan son sinn, verður sífellt undarlegra en svo virðist sem ….”. Í barnaskóla lærðu nemendur forðum meðal annars að beygja orðin faðir, móðir, systir og bróðir. Nú er það væntanlega kennt í öllum grunnskólum. Sá sem skrifaði þetta á vef dv.is hefur sloppið við þessa kennslu eða ekki náð að tileinka sér það sem kennarinn/kennararnir sögðu.

 

Það voru fáránleg vinnubrögð hjá Ríkisútvarpinu í gærkveldi (06.07.2014) að hætta fréttaútsendingu í miðju kafi á Rás eitt þegar yfir stóð eldsvoði, sem er sennilega einn sá mesti á landinu í áratugi. Hvar var dómgreindin? Hvar var fréttamatið? Frammistaða fréttamanns á staðnum, Ragnhildar Thorlacius, var prýðileg. Svo áttaði sig einhver í Efstaleiti því svo kom bein sjónvarpsútsending úr Skeifunni þar sem Björn Malmquist fréttamaður gerði okkur ágætlega grein fyrir stöðunni. Það er greinilega eitthvað að í yfirstjórninni í Efstaleiti.

Það kom reyndar einnig í ljós í gærkveldi, að allt í einu er hægt að nota skjáborða til að flytja okkur upplýsingar. Það hefur ekki verið hægt að undanförnu þegar fótboltinn hefur endalaust ruglað auglýstri dagskrá. Nú hafa menn greinilega náð tökum á tækninni.

 

Girnd er holdleg þrá, ástríða, fýsn. Að líta eitthvað girndarauga er að horfa á eitthvað girndarfullu augnaráði. Það er hæpin orðnotkun að mati Molaskrifara , þegar í grein í DV (04.-07.07.2014) um græðgisvæðingu ferðaþjónustunnar er sagt: ,,Fjölmargir íbúðareigendur horfa girndaraugum á þessa stækkandi köku ….”. Kannski væri nær að tala um ágirndaraugu.

 

Hvað þýðir fyrirsögnin ,,Endilöng biðröð út af landsmótssvæði” sem var á forsíðu visir.is á sunnudag (06.07.2014)? Líklega bara að biðröðin hafi verið löng. Endileysa.

 

GMA sendi Molum eftirfarandi (04.07.2014): ,,Er ekki lágmarks kurteisi að greina fólki frá því hvar fréttnæmir hlutir gerast?
Í frétt Vísis frá því í morgun (4.7) segir:
Mikið magn af kannabisplöntum var haldlagt í Akralandi í gær.
Lögreglu var tilkynnt um ræktunina eftir að málari, sem fenginn var til að mála húsið að utan, sá inn um glugga að ekki var búið í íbúðinni og hún aðeins nýtt í kannabisræktun.
Fréttablaðið ræddi við nokkra íbúa í húsinu en enginn þeirra hafði orðið var við ræktunina. Íbúðin mun hafa verið í útleigu og var eigendum hennar gert viðvart í gær.
Þeir vildu ekki tjá sig við blaðið að öðru leyti en að þeir tengdust málinu ekki neitt.”
GMA segir líka:,,Það skal viðurkennt að skrifari býr á höfuðborgarsvæðinu og telur líklegt, þar sem ljósmyndari Vísis var í grennd, að umrædd aðgerð lögreglu hafi verið á því svæði.
En sá hinn sami hefur ekki hugmynd um hvar Akraland er, hvort það er í Reykjavík, Garðabæ, Kópavogi, Hafnarfirði, Mosfellsbæ eða á Seltjarnarnesi.
Honum datt strax í hug Akranes sem hefði skýrt fréttina um leið. En Akraland, sem er hið ágætasta nafn á sveitarfélagi, er líklega flestum lesendum ókunnugt.”. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Danska sjónvarpið, DR , hefur að undanförnu verið að sýna heimildamyndaflokk sem heitir Gleymdar kvikmyndir úr seinni heimsstyrjöldinni. Mjög athyglisvert og fróðlegt efni.

Það er ámælisvert og skammarlegt að Ríkissjónvarpið okkar skuli næstum aldrei sýna heimildamyndir um merkustu atburði nýliðinnar aldar. Það á sinn þátt í því að hér vaxa úr grasi kynslóðir sem vita ekkert um söguna, en eru því betur að sér um Evróvisjón og fótbolta, aðaláhugamál þeirra sem nú ráða dagskrá Ríkissjónvarpsins.

 

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>