«

»

Molar um málfar og miðla 1510

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (04.07.2014) var ítrekað talað um álver Reyðarfjarðar. Heitir álverið ekki Álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði? Minnir það.

 

Í tíufréttum Ríkissjónvarps á fimmtudagskvöld (03.07.2014) var talað um hluta flaks skemmtiferðaskipsins Costa Concordia, sem enn væri undir vatni. Betra hefði verið að segja, – … sem enn væri undir sjólínu, eða sem enn væri í kafi.

 

Gamall blaðamaður,sem segist hafa verið kallaður ,,eldgamall málfarskverúlant” og þyki bara nokkuð til um það“ sendi Molum línu og segir:

(04.07.2014): ,,Geturðu ekki komið vinum þínum á fréttastofu útvarps í skilning um að það sé alveg nóg að lyf séu vanabindandi?” Molaskrifari þakkar ábendinguna. Þetta er rétt. Óþarfi er að segja að lyf séu ávanabindandi. Og bætir því við að hann á nú orðið ekki marga vini á fréttastofunni í Efstaleiti. Í þeim vinahópi er nú orðið líklega aðeins einn, en ekki er hann minna virði fyrir það!

 

Enn einn matreiðsluþátturinn á dagskrá Ríkissjónvarpsins á fimmtudagskvöld (03.07.2014). Er þetta endalaust? Svo golf á besta tíma. Margir spila golf, en þetta efni átti auðvitað að vera á íþróttarásinni. Til hvers annars er hún? Makalaust að frekja Íþróttadeildar skuli endalaust fá að ráða ríkjum í dagskrá Ríkissjónvarpsins við Efstaleiti.

 

Ósköp þykir Molaskrifara hvimleitt að heyra sama þulinn í Ríkisútvarpinu sífellt tala um ljóð sem texta (t.fd. 03.07.2014) , þegar sagt er frá síðasta lagi fyrir fréttir. Telur málfarsráðunautur þetta vandað mál?

 

Molaskrifari setur Morgunblaðið og Bændablaðið í sama flokk, þegar kemur að skrifum um Evrópumál og ESB. Hann trúir ekki einasta orði sem þessir miðlar segja um þau mál. Og ekki að ástæðulausu. Honum finnst reyndar stundum að Morgunblaðið ætti að heita Herópið. Það leggur svo mikla stund á trúboð án tillits til staðreynda.

 

Stundarkorn hlustaði Molaskrifari á morgunþátt Rásar á föstudagsmorgni (04.07.2014). Þar var talað um keppanda sem yrði sælari, þegar hann kæmi í mark. Sælli. – Svo var lesið úr dagblöðunum og gekk það heldur brösuglega.- Seinna var spurt í viðtali: Hvernig lítur þetta við þér? Hvernig horfir þetta við þér? Hvað sýnist þér um þetta ? Það verður að gera meiri kröfur til umsjónarmanna fastra þátta í Ríkisútvarpinu. Þeir verða bæði að vera vel læsir, vel talandi og skrifandi.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>