«

»

Molar um málfar og miðla 1509

Útvarpsstjóri Útvarps Sögu bauð hlustendum (02.07.2014) í auglýsingu frá Laxdal að versla merkjavöru á góðu verði. Hvað þarf fólk að starfa lengi við fjölmiðlun til að læra þá einföldu reglu að fólk verslar ekki vörur? Fólk kaupir vörur.

 

Úr frétt á mbl.is (02.07.2014): Hæstirétt­ur ógilti dóm­inn í fyrra og vísaði mál­inu aft­ur til und­ir­rétts. Það var og. Til undirrétts! Ja, hérna, Moggi. Búið að reka alla yfirlesara?

 

Þú ert að koma með stormi inn í þessa mótaröð, sagði golfþáttarstjórnandi á ÍNN (02.07.2014) við unga konu sem vegnar vel í golfíþróttinni

 

Það má orða hlutina á ýmsan veg. Hvalaskoðunarbáti var siglt glæfralega nálægt landi við Lundey á Skjálfanda og báturinn strandaði. Morgunblaðið (03.07.2014). Sem betur fer sakaði engan. Talsmaður hvalaskoðunarfyrirtækisins, sem á og rekur bátinn sagði við Morgunblaðið: ,, … í þessu tilviki var farið of nálægt landi, sem gerði það að verkum að báturinn festist”. Hann festist sem sé, strandaði ekki! Eigandi hvalaskoðunarfyrirtækisins endurtók svo í hádegisfréttum Ríkisútvarps , – báturinn festist!  Morgunblaðið sagði réttilega í fréttinni, að báturinn hefði strandað. Í tíufréttum Ríkisútvarps (03.07.2014) var sagt að báturinn hefði tekið niður! Báturinn tók ekki niður. Báturinn tók niðri. Málfarsráðunautur. Hvar er hann?

 

Hýmt í helli, stóð í skjátexta í fréttum Ríkissjónvarps (02.07.2014). Hímt í helli hefði þetta átt að vera. Til er ljómandi góð Stafsetningarorðbók, sem kom út 2006 á vegum Íslenskrar málnefndar og JPV útgáfu. Svo er alltaf hægt að leita á náðir netsins.

 

Tískuorðalagið heilt yfir er vinsælt hjá sumum. Í fréttum Ríkissjónvarps (02.07.2014) sagði fréttamaður: Í gegnum tíðina svona heilt yfir…. Þetta þykir ýmsum sjálfsagt gott og gilt. En hér í gamla daga hefði sá fréttamaður, sem hefði látið sér þetta um munn fara í útsendingu aldeilis fengið orð í eyra frá okkar góða fréttastjóra séra Emil Björnssyni. Honum var annt um íslenskt mál. Mér var reyndar kennt strax í gagnfræðaskóla að ekki væri vandað mál að segja í gegnum tíðina. –

Í seinni fréttum Ríkissjónvarps þetta sama kvöld var sagt að þýskir ferðamenn hefðu leitað skjóls í steinhelli. Steinhelli? Þeir leituðu skjóls í helli.

 

Minnugur síðasta sumar, var sagt í hádegisfréttum Bylgjunnar (03.07.2014). Minnugur síðasta sumars, hefði það átt að vera.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

4 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Vel má vera að um misheyrn hjá mér hafi verið að ræða. Heyrði ekki betur en sagt væri ,,steinhelli“, en þetta er sjálfsagt rétt hjá þér, Árni.

  2. Árni Böðvarsson skrifar:

    Heitir hellirinn ekki Steinahellir sem þýsku ferðamennirnir leituðu sér skjóls í, og er kendur við bæinn Steina undir Eyjafjöllum? Er hann ekki gamall þingstaður Eyfellinga?

  3. Eiður skrifar:

    Nokkuð til í þessu, Eirný.

  4. Eirný Vals skrifar:

    Kannski er þetta smámunasemi, í það minnsta brosi ég þegar ég sé myndina fyrir mér.
    Ekk­ert ferðaveður fyr­ir öku­menn með aft­anívagna
    svo er fyrirsögn á vef Morgunblaðsins.

    http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/04/ekkert_ferdavedur_fyrir_okumenn_med_aftanivagna/

    Mér finnst þetta vera svipað og þegar sífellt er tekið fram að farþegar flugvéla og skipa eru innanborðs. Mér verður þá oft hugsað til þeirra sem eru utanborðs og ættu að vera aðalfréttaefnið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>