«

»

Molar um málfar og miðla 1514

 

Enginn sammála um ágæti Costco, segir í feitletraðri fjögurra dálka fyrirsögn í DV (8.-10.07.2014). Molaskrifara finnst þessi fyrirsögn ekki í lagi. Finnst að hér sé hugsanavilla á ferð. Betra hefði verið, til dæmis: Enginn einhugur um ágæti Costco. Hvað segja Molalesendur?

 

Pétur Kristjánsson skrifari Molum (09.07.2014): ,,Eitt aðaleinkenni á íslensku talmáli er að áhersla er ávallt lögð á fyrsta atkvæði í orðum. Ekki virðist þessi regla vera öllum fjölmiðlamönnum kunn því æ oftar heyrir maður íslensku orðin úttöluð áherslulaust eða áhersla er lögð á hvaða atkvæði sem er hvar sem það er í orðinu. Sérstaklega er þetta áberandi hjá veðurfréttakonu hjá Ríkissjónvarpinu og einum íþróttafréttamanni á sama stað. Mér finnst að málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins Sjónvarps ætti að taka á þessu, nema að íslenskan hafi breyst með þessum hætti. Óþarfi er að nefna dæmi því þetta stingur í eyrun nánast daglega.”. Molaskrifari þakkar Pétri réttmæta ábendingu.

 

Enn sigra menn keppni  í Ríkisútvarpinu! Hvaða ætla menn þar á bæ að halda lengi áfram að klæmast á þessu? Í morgunfréttum á miðvikudagsmorgni (09.07.2014) var sagt frá tapi Brasilíumanna gegn Þjóðverjum kvöldið áður: Töldu flestir að liðið hefði burði til að sigra heimsmeistarakeppnina. Það er ekki til neins að hafa málfarsráðunaut við Ríkisútvarpið, ef hann ekki getur kennt íþróttafréttmönnum að forðast svona ambögur. Kannski gafst hann bara upp og fór í sumarfrí, þegar fótboltafárið hófst. Í sömu frétt var talað um óeirðarlögreglu. Óeirðalögreglu, hefði Molaskrifari haldið að það ætti að vera.

 

Glöggur lesandi benti á þetta (08.07.2014): Í grein um ,,Sparsama Belga”, segir höfundur:

,,Lenaerts hefur góðfúslega veitt mér leyfi til að birta ritgerð hans og er hægt að nálgast hana á þessari slóð….”

Einhvern veginn finnst mér að þarna heeði átt að standa: …ritgerð sína… “ Molaskrifari er sammála og þakkar ábendinguna.

 

Enn talaði fréttaþulur Ríkissjónvarps um gestgjafa Brasilíu í fótboltafrétt í seinni fréttum Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (08.07.2014). Þetta orðalag er rangt og vanhugsað eins og flestir sjá og skilja. Brasilíumenn eru gestgjafar annarra þjóða á HM en þeir eru ekki gestgjafar Brasilíu. Undarleg meinloka sem hefur dunið á okkur aftur og aftur að undanförnu.

 

Ríkisútvarpið auglýsir nú glæsilegt skrifstofuhúsnæði til leigu ,,á útsýnisstað”, les Efstaleiti. Auglýsingunni er greinilega beint til fyrirtækja þar sem meginverkefni fólks er að horfa út um gluggann. Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>