«

»

Heiður þeim sem heiður ber?

Grein sem birtist í Fréttablaðinu 10. júlí 2014:

Alltaf er það gott þegar  fólk er heiðrað að verðleikum fyrir  vel unnin störf og afrek á lífsleiðinni.

 

Snemma í maí var frá því greint í Morgunblaðinu  (02.05.2014) að American Scandinavian Foundation , sem eru eins og blaðið segir ,,aðalsamtök fólks af norrænum uppruna í Bandaríkjunum” hefðu heiðrað Ólaf Ragnar Grímsson fyrir framlag hans til  samvinnu Íslands  við Bandaríkin. Þetta var auðvitað tímabært og mátti sannarlega ekki dragast öllu lengur.

 

Ólafur Ragnar Grímsson átti að baki langan  feril í stjórnmálum á  Íslandi, þegar hann af einstakri fórnfýsi bauðst til að verða forseti lýðveldisins. Það þáði þjóðin. Með þökkum að því er virtist.

 

Það var eitt öðru fremur, sem  setti mark á stjórnmálaferil Ólafs Ragnars Grímssonar. Það  var að gera allt sem í hans valdi stóð til að spilla og skaða samvinnu og samskipti Íslands og Bandaríkjanna.

 

Ólafur Ragnar Grímsson var í öllu sínu pólitíska starfi andvígur varnarsamstarfinu við Bandaríkin og  vestrænar þjóðir og aðildinni að Nató sem í áratugi hefur verið einn af hornsteinum utanríkisstefnu íslenska lýðveldisins. Hann barðist gegn þessu með kjafti og klóm. Það gerði hann  hvar sem var og hvenær sem var og taldi ekkert eftir sér í þeim efnum.

 

Ólafur Ragnar Grímsson  vann markvisst að því að koma því inn hjá þjóðinni, og naut þar aðstoðar fjölmiðla ,eins og Ríkisútvarpsins, að Bandaríkjamenn geymdu kjarnorkuvopn á  Íslandi og héldu því leyndu fyrir íslenskum ráðamönnum.  Fullyrðingar hans  reyndust  rangar. Erlendur   maður, William Arkin, sem  hafði látið að þessu liggja kom hingað til þess að biðjast afsökunar á ummælum sínum. Ekki rekur mig minni til þess að Ólafur Ragnar Grímsson hafi dregið í land með  nein ummæli sín um kjarnorkuvopn Bandaríkjamanna á Íslandi. Eða beðið nokkurn mann afsökunar.

 

Ólafur Ragnar  Grímsson barðist gegn  byggingu nýrrar  flugstöðvar við  Keflavíkurflugvöll vegna þess að hann leit á flugstöðina sem einhverskonar  hernaðarmannvirki í þágu Bandaríkjanna. Illu heillu tókst honum að fá  flugstöðina minnkaða  frá því sem  upphaflega var gert ráð fyrir.

 

Óalfur Ragnar Grímsson vildi leggja Ameríkuflug  Flugleiða niður. Steingrímur Hermannsson, þá samgönguráðherra, kom í veg fyrir að þau áform hans næðu fram að ganga. Þessa sögu kunna þeir vel, sem störfuðu  að flugmálum á þeim tíma.

 

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, lét hringja  í Carol van Voorst sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi í apríl 2009 þegar hún var á leið  til Bessastaða til að veita hinni íslensku fálkaorðu viðtöku. Henni hafði verið tilkynnt að hún hefði verið sæmd fálkaorðunni. Efni símtalsins frá forseta Íslands  var að segja Carol van Voorst,  sendiherra bandarísku þjóðarinnar á Íslandi að þetta væri allt tóm vitleysa. Hún fengi enga fálkaorðu. Þetta væri bara allsherjar misskilningur.  Seinna  gaf hann  í skyn að hún verðskuldaði ekki fálkaorðuna.  Eftir  þessa einstæðu uppákomu varð nokkur bið á því að Bandaríkin skipuðu nýjan sendiherra á Íslandi. Þótt sumum kunni að finnast það ótrúlegt þá skaðaði þessi gjörð forsetans samskipti Íslands og Bandaríkjanna meira en flest annað í þeirri sögu allri.

 

Það var sennilega ekki þetta sem American Scandinavian Foundation var að heiðra Ólaf Ragnar Grímsson fyrir í bættum samskiptum Íslands og Bandaríkjanna. Eða hvað?

 

Eru  störf og stefna  stjórnmálamannsins Ólafs Ragnars Grímssonar eitthvað, sem  allir eiga að gleyma?

Ég er ekki þeirrar skoðunar.

Þannig á ekki að skrifa söguna.

 

Allan  sinn stjórnmálaferil vann Ólafur Ragnar Grímsson markvisst að því að spilla og skaða samstarf Íslands við Bandaríkin.

Seinni árin hefur hann kosið að bregða yfir sig öðrum blæ. Sögunni  verður samt  ekki breytt. Sagan verður ekki endurskrifuð. Það er bara reynt í þeim ríkjum, sem við síst viljum líkjast.

Auðvitað getur American Scandinavian Foundation heiðrað Ólaf Ragnar Grímsson.  En ekki fyrir framlag hans til að bæta og efla samvinnu Íslands og Bandaríkjanna.

 

Eiður Svanberg Guðnason.

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður,
    Svar þitt birtist í tölvupósti mínum sem ruslpóstur og átt ég því erfitt með að svara. Mín vegna má birta þessi skrif mín ef þú telur það við hæfi.
    Kv, Egill

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eður,
    Já það er margt sem að Íslendingar hafa gleymt varðandi sóðakjaft Ólafs Ragnars. Ég vildi líka bæta við að Ólafur barðist einnig gegn byggingu flugstöðvarinnar á þeim forsendum að hún væri allt of stór. Síðar kom í ljós að hún var strax í byrjun of lítil. Ekki má heldur gleyma hvernig hann lagði hvert fyrirtækið á fætur öðru í einelti og reyndi að knésetja þau. Oftast lá að baki einhver brenglun í sálarhlandfor hans frekar en skynsamleg rök. Hver man t.d ekki eftir árásum hans á ( fáir í dag ) Flugleiði, Ávöxtun, Arnarflugi, Hagvirkja, Magnúsi Thoroddssyni svo eitthvað sé nefnt.
    Langaði bara til að bæta þessu við okkar á milli. Kosning hans sem forseta er mér með öllu óskiljanleg og svartur blettur á Íslandssögunni.
    Kv. Egill Þorfinnsson

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>