«

»

Molar um málfar og miðla 1515

Málglöggur Molalesandi sendi eftirfarandi:

Á textavarpi Ríkisútvarpsins hefur eftirfarandi staðið, það sem af er degi (10.07.2014)

Hér er talað um á í fleirtölu eignarfalli sem ánar. Þetta er tvítekið í þessari stuttu frétt, svo varla er þetta innsláttarvilla.

,,Fólk haldi sig frá Múlakvísl. Óvissustig er enn í gildi fyrir Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi. Lögregla og almannavarnir ráðleggja ferðafólki að halda sig frá upptökum ána, og jökulsporðunum, þar sem flóð geti vaxið með skömmum fyrirvara og brennisteinsvetni berist með hlaupvatninu. Engar breytingar hafa verið á rennsli ána í nótt, og mælar Veðurstofunnar sýna að vatnshæð í Jökulsá er talsvert lægri en á sama tíma í gærmorgun, auk þess sem leiðni vatnsins er á niðurleið – leiðnin segir til um magn jarðhitaefna í vatninu.

– Oftar en ekki er þetta á annan veg og sumir tala gjarnan um ánna, brúnna, – og jafnvel sá ég um daginn að Páli Bergþórssyni var þakkað kærlega fyrir spánna! Í þessu eru reyndar fleiri villur, s.s. komma á undan OG, á tveimur stöðum en ætli einhverjum þyki það ekki óþarfa smámunasemi? (Og, er til eitthvað sem heitir jarðhitaefni?).

– Molaskrifari þakkar ábendinguna. Ekki vandað málfar.

Af mbl.is (09.07.2014): Fram kom fyrr í dag hjá Árna Bald­urs­syni, sem er leigutaki af Stóru-Laxá í Hrepp­um, … Leigutaki af Stóru-Laxá? Leigutaki Stóru-Laxár. Úr sömu frétt: Einnig kem­ur fram að búið sé að skrá 16 laxa í veiðibók­ina á svæðinu sem eru flest­ir yfir 80 cm lang­ir, en þar opnaði þann 30. júní síðastliðinn. Þar opnaði? Þar hófst veiði, er líklega það sem við er átt.

 

Í fyrirsögn í Morgunblaðinu (10.07.2014) segir: Stórvirkar vinnuvélar sjá um að tryggja brunavettvang. Vinnuvélar tryggja ekki brunavettvang. Í þessu tilviki voru þær notaðar til að fjarlægja steypubita sem ógnuðu öryggi starfsmanna sem könnuðu eldsupptök á brunastaðnum. Vitnað er í rannsóknarlögreglumann:,, … því það var ekki búið að tryggja strengjasteypubitana.” Hann átti við að ekki væri búið að fjarlægja strengjasteypubitana.

Í fréttum Stöðvar tvö eru flugskeyti eða eldflaugar oftast kölluð loftskeyti. Ekki er Molaskrifari sáttur við þá orðanotkun. Loftskeytastöðin á Melunum í Reykjavík var ekki eldflaugastöð. Hún var fjarskiptastöð. Í Ríkisútvarpinu er réttilega talað um flugskeyti.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>