Molaskrifari heyrði í Sumarglugganum á Rás eitt í Ríkisútvarpinu (þar sem oft er áhugavert efni) eldsnemma á föstudagsmorgni (11.07.2014) að Íslensku safnaverðlaunin yrðu afhent á sunnudaginn kemur, 13. júlí. Hélt að sér væri farið að förlast. Vissi ekki betur en þessi virðulegu verðlaunin hefðu verið afhent við hátíðlega athöfn á sunnudaginn var (06.07.2014) og að gagnasafnið Sarpur hefði hlotið verðlaunin. Sjá:
http://www.visir.is/sarpur-hlytur-islensku-safnaverdlaunin-2014/article/2014140709293 og http://www.forseti.is/media/PDF/2014_07_06_safnaverdlaun.pdf
Svo var hálfhallærislegt að segja okkur frá spennandi safnadögum sem væru utanbæjar, – í Garðabæ og Hafnarfirði! Líkast til er allt utanbæjar sem ekki er í Reykjavík, – eða hvað? Molaskrifari er búsettur í Garðabæ. Hann er því utanbæjarmaður samkvæmt þessu.
Fyrrverandi kollega skrifaði (10.07.2014): ,,Horfði í kvöld, aldrei þessu vant, á fréttir Stöðvar tvö. Mér brá. Aðalþulur kvöldsins var nánast óskiljanlegur og ólæs. Hann dró niður röddina í síðari hluta allra setninga, þannig að einungis skildist fyrri parturinn og þó með naumindum. Þá voru fréttabörn áberandi með barnslegt tungutak. Ég sá að sennilega hef ég ekki misst af miklu eftir að ég hætti að horfa á þessi ósköp.” Molaskrifari þakkar bréfið. Rétt er það að þarna er ekki alltaf vandað tilverka. Síður en svo. Alltaf lætur Molaskrifari það til dæmis fara í taugarnar á sér þegar einn fréttaþulurinn skipar honum að halda kyrru fyrir, þegar íþróttafréttir hefjast. Túlkar það reyndar sem skipun um að skipta um stöð.
Af visir.is (10.07.2014), úr frétt um launakjör sveitarstjóra í Rangárþingi ytra: ,, Um tæpa fimmfalda hækkun bílastyrks er að ráða frá því sem áður var að sögn minnihlutans í þinginu.” Að sögn minnihlutans í þinginu er dálítið langsótt orðalag. Á forsíðu visir.is segir um þetta sama mál: ,, Minnihlutinn í Rangárþingi ytra gagnrýnir breytingu á ráðningarsamningi við Ágúst Sigurðsson sveitarstjóra sem heimili honum að búa utan þinginu.” Enn langsóttara!
Í fréttum Stöðvar tvö (10.07.2014) var talað um sprotafyrirtæki sem væru væntanleg til vaxtar. Betra hefði verið að segja: … sem væru vænleg til vaxtar, eða þætti líklegt að ættu eftir að vaxa.
Til þess að fá einhverja nasasjón af því sem er að gerast í veröldinni verða íslenskir áhugamenn um erlendar og fréttir og erlend málefni að leita á náðir erlendra fjölmiðla. Íslenskir fjölmiðlar sinna erlendum fréttum og fréttaskýringum lítið sem ekkert. Það er miður. Gott aðgengi er hér að erlendum miðlum á netinu og í sjónvarpi, – sem betur fer. Ríkissjónvarpið sinnir erlendum fréttum og fréttaskýringum langtum verr en gert var frumbýlingsárunum fyrir nærri hálfri öld. Það er merkilegt. Nú er asklok haft fyrir himin í Efstaleiti og sér þess stað í mörgu.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
2 athugasemdir
Ekkert ping ennþá
Eiður skrifar:
12/07/2014 at 22:02 (UTC 0)
Takk fyrir þetta, Egill. Þetta hlýtur að hafa verið grjótspjót!
Egill Þorfinnsson skrifar:
12/07/2014 at 21:37 (UTC 0)
Sæll Eiður,
Undarlegt þótti mér orðalag hjá fréttamanni Stöðvar 2 nú í kvöld þegar að sagt var frá spjótkastara „sem grýtti spjótinu“. Spjótkast yrði hjákátlegt ef spjótkastarar tækju upp á því að grýta spjótunum..
Kv, Egill