«

»

Molar um málfar og miðla 1517

 

Gamalreyndur blaðamaður og kollega skrifaði (12.07.2014): ,,Sæll og blessaður, félagi. Enn og aftur vaða meðlimir uppi í fréttum. Sýnist þeim hafa fjölgað ískyggilega upp á síðkastið. Hvar eru nú orðin félagi, skipverji, flugliði og öll þessi fallegu orð sem hægt er að nota. Get ekki að því gert að þetta orðskrípi veldur mér hrolli og sennilega myndu hárin rísa á höfði mér, væru þau einhver, í hvert skipti, sem það ber fyrir augu, Átaks er þörf.” Það er hverju orði sannara. Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Í helgarblaði DV (11.-14.07.2014) er viðtal við Samherjamanninn Kristján Vilhelmsson. Þar segir: ,,Kristján á ættir að rekja til Flateyjar við Önundarfjörð, ....” Flateyri er við Önundarfjörð. Þar er engin Flatey. Landafræði er ekki lengur kennd í skólum og efni ekki lesið vandlega yfir áður en það er birt. Ágætt og fróðlegt viðtal.

 

Sjónvarpsstöðvarnar N4 og ÍNN eru oft fundvísar á efni, sem Ríkissjónvarpið og Stöð tvö láta fram hjá sér fara eða hafa ekki áhuga á. Nýlega sá Molaskrifari athyglisvert viðtal við Helga Jóhannesson hæstarréttarlögmann, á N4. Þar var fjallað um 70 blaðsíðna rit , Leiðarvísi ferðaþjónustunnar, sem lögmannsstofa Helga, Lex, hefur tekið saman um lög og reglur sem varða ferðaþjónustu og þá sem þar starfa. Þarft verk. Ritið er aðgengilegt á netinu og hjá Lex og er ókeypis, – sem er ekki algengt um eitt eða neitt nú um stundir. Lofsvert framtak.

 

Konsúll Thomsen keypti bíl, fyrsti þáttur heimildamyndar í þremur þáttum var sýndur í Ríkissjónvarpinu á laugardag (12.07.2014). Þetta mun vera í þriðja sinn sem þessir þættir eru sýndir. Allt gott um það. Mjög fróðlegt efni og vel gerð mynd. Það gat eiginlega ekki heitið að þátturinn væri kynntur í dagskránni á laugardaginn. Hvenær gerir nýr útvarpsstjóri sér grein fyrir því að núverandi fyrirkomulag dagskrárkynninga í Ríkisjónvarpinu er óboðlegt ?

Hversvegna segir Ríkissjónvarpið okkur ekki í prentaðri dagskrá, eða dagskrárupplýsingum á netinu að þetta sé endursýnt efni? Hversvegna þennan sífellda óheiðarleika? Hversvegna að ljúga að okkur með þögninni, þegar verið er að endursýna efni?

 

Það er prýðilega vel til fundið að endursýna frábæra þætti þeirra Brynju og Braga Valdimars, Orðbragð. Þetta er með því besta sem lengi hefur komið frá Ríkissjónvarpinu.

Álitamál hinsvegar hvort endursýningin eigi að vera á besta sjónvarpstíma á föstudagskvöldi. Eins er spurt: Hversvegna er þess ekki getið í prentaðri dagskrá sem birt er í blöðunum að um endursýningu sé að ræða? Kemur hvergi fram á prenti, að því best verður séð.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>