Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á laugardag (12.07.2014) sagði fréttamaður:,,Forsætisráðherra segir að ekki veitir af að ….” Hefði átt að vera: Forsætisráðherra segir að ekki veiti af að ….”
Sérkennileg og illskiljanleg mistök ritara Reykjavíkurbréfs í sunnudags mogga (13.07.2014) verða sjálfsagt lengi í minnum höfð.. Bréfritari eignaði umboðsmanni Alþingis undarlega ritsmíð, sem dreift hafði verið í tölvupósti fyrr á árinu til ýmissa á víð og dreif í samfélaginu og lagði út af furðuskrifunum. Þegar mistökin komu í ljós, bað Morgunblaðið lesendur sína afsökunar svo umboðsmann Alþingis! Í mánudags mogga var örstutt leiðrétting falin neðst á bls. 2, – eins lítið áberandi á síðunni og mögulegt var. Hvernig er eiginlega komið fyrir Morgunblaðinu? Ýmsir sjá efni áður en blað fer endanlega til prentunar. Kannski vogaði sér enginn að gera athugasemd. Undarlegt mál. – Í DV á þriðjudagsmorgni (15.07.2014) segir, að höfundur þessa fræga tölvupósts hafi sent hann Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni fyrir fáeinum dögum. Var það kannski Hannes Hólmsteinn sem síðan sendi skrifara Reykjavíkurbréfs póstinn með þeim orðum að hann væri frá umboðsmanni Alþingis? Ekki fráleitt að álykta í þá veru, þegar þessi póstur sem upphaflega fór á flakk 30. janúar 2014 skýtur nú upp kollinum í Reykjavíkurbréfi Mogga með þeim endemum sem að ofan er lýst.
Trausti vakti athygli á þessu á mbl.is (12.07.2014): http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2014/07/11/vidraedur_vid_easyjet_stodu_i_atta_ar/
„Flugfélagið EasyJet mun, ólíkt öðrum flugfélögum, fljúga til og frá Keflavíkurflugvallar utan háannartíma næsta árið“
Hann segir: ,,Eitthvað er þetta nú fljótfærnislegt og lítið hugsað” Rétt er það.
Stærsti galli rafrænna kosninga, segir Hanna Birna vera, … Svona var tekið til orða í kvöldfréttum Ríkisútvarps (12.07.2014). Hefði átt að vera: Stærsta galla rafrænna kosninga ,segir Hanna Birna vera ….
Margir kváðu sér hljóðs, sagði fréttamaður Ríkissjónvarps (12.07.2014) Margir kvöddu sér hljóðs.
Úr dagskrárkynningu í Ríkissjónvarpi (12.07.2014): Hinn heimsfrægi kvikmyndaleikstjóri ….. fékk leyfi til að mynda hellana sem annars eru algjörlega verndaðir! Spillir það hellunum að mynda þá?
Molaskrifari var eiginlega búinn að gleyma því hve ,,Börn náttúrunnar” , mynd Friðriks Þórs er fín kvikmynd. Gott handrit,vel tekin,vel leikin, og vel klippt. Vegna fótboltans (13.07.2014) seinkaði sýningu hennar í dagskrá Ríkissjónvarps. Molaskrifari tók hana upp og horfði á daginn eftir, sér til ómældrar ánægju. Myndin er gersemi.
Það er undarleg árátta hjá stjórnendum Ríkissjónvarpsins að fylla laugardags og sunnudagsmorgna af barnaefni. Væntanlega er þetta einhverskonar vanhugsuð tillitssemi við foreldra; að þeir geti sofið og haft frið fyrir afkvæmum sínum. Á mörgum, kannski velfelstum heimilum fjölskyldufólks, eru ýmsir möguleikar fyrir hendi til að hafa ofan af fyrir börnum aðrir en að stilla þeim upp fyrir framan sjónvarpið. En sé búið að venja börn á slíkt eru auðvitað til mynddiskar, aðrar rásir og aðrar stöðvar með barnaefni.
Ríkissjónvarpið á að sýna fjölbeytt efni almenns eðlis á laugardags- og sunnudagsmorgnum. Hugsar Molaskrifari þá ekki síst til eldri borgara ,sem sumir hverjir hafa lítinn félagsskap,eru einstæðingar, fá ekki margar heimsóknir og halla sér helst að sjónvarpinu sér til dægrastyttingar, þegar dagarnir eru lengi að líða. Sumt þetta fólk er ekki tækjaklókt, hefur ekki mynddiskatæki og á í erfiðleikum með að nota 2- 3 fjarstýringar. Þetta fólk byggði upp Ríkisútvarpið og Ríkissjónvarpið. Ríkisútvarpið á því skuld að gjalda. Stjórnendur dagskrár í Efstaleiti sinna þessum hópi skammarlega illa. – Og í lokin, ef góða spennumyndir eru sýndar, eru þær oftar en ekki á dagskrá undir miðnætti og sýningu lýkur ekki fyrr en komið er fram á nótt. Þessar myndir mætti annaðhvort flytja framar í kvölddagskrána, eða auglýsa strax endursýningu fyrri hluta dags daginn eftir eða næstu daga. Eldri borgarar eru gleymdur hópur hjá unga fólkinu sem ræður ríkjum í Efstaleiti. Þetta er bara vinsamleg ábending.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar