KÞ bendir á þessa frétt á dv.is (13.07.2014): https://www.dv.is/lifsstill/2014/7/13/kuldi-veldur-ekki-kvefi/
Hann spyr;
,,Það er vissulega jákvætt að leitast við að fræða fólk. Hvort skyldi það nú vera baktería eða veira sem veldur kvefi?”. Molaskrifari þakkar ábendinguna.
Nú, þegar fótboltanum linnir, fáum við danska þætti um kökubakstur og eftirréttagerð (15.07.2014). Það gerir ekki endasleppt við okkur, blessað Ríkissjónvarpið. Dásamleg dagskrárstjórn. Þessir þættir eiga ekkert erindi í kvölddagskrá á besta tíma.
Haukur skrifaði Molum (14.07.2014):
„Bestu tónleikar sem ég hef séð,“ skrifar Hallur Már í mbl.is í dag.
Er það rétt að tala um tónleika sem sjónleik? Væri ekki nær að tala um bestu tónleika sem ég hef farið á, upplifað eða jafnvel heyrt. Hvað finnst þér? – Molaskrifari er sammála Hauki. Dálítið skrítið að tala um að ,,sjá tónleika”. Sjá: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/14/bestu_tonleikar_sem_eg_hef_sed/
Molaskrifari játar, að hann náði ekki að skilja nema annað hvert orð og illa það í tveimur fréttum í fréttatíma Stöðvar tvö í gærkveldi , þriðjudagskvöld (15.07.2014). Þetta voru fréttir um skattaeftirlit og nýtt íslenskt snjallsímaforrit. Fréttamaðurinn sem fréttirnar flutti var svo óskýrmæltur að ekki er boðlegt. Annaðhvort þarf fréttamaðurinn raddþjálfun eða annað starf. Það er væntanlega ætlunin að fólk skilji þær fréttir sem fluttar eru.
Í ágætri fréttaskýringu um ástandið á Gaza-svæðinu í Speglinum á Rás eitt (14.07.2014) var sagt: ,, … þar af þrjár herbúðir”. Þarna hefði átt að tala um þrennar herbúðir, – ekki þrjár.
Höfnuðu kröfu um ógildu kosninga, var sagt á forsíðu visir.is á þriðjudag (15.07.2014). Það var og. Ógilda? Er það nýtt nafnorð?
Í seinni fréttum Ríkissjónvarps (14.07.2014) var landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins spurður hvort náttúran ætti ekki að njóta vafans þegar beitarálag væri til umræðu. Ráðherrann reyndi ekki einu sinni að svara spurningunni. Fréttamaður lét það bara gott heita og fylgdi málinu ekki eftir. Ekki geta það talist góð vinnubrögð. En ekki ný af nálinni.
Í hádegisfréttum Ríkisútvarps (14.07.2014) var sagt að hópur utangarðsmanna í Reykjavík væri hreyfanlegur. Þetta hafa sennilega ekki allir skilið, enda undarlegt stofnanamál. Sennilega var átt við að ekki væri alltaf sama fólkið í hópnum.
Í frétt Ríkisútvarps (14.07) um að 40 ár væru frá opnun hringvegarins var Sigurður Sigurðsson sagður fréttaþulur. Sigurður var ekki fréttaþulur. Hann var lengi íþróttafréttamaður, frægur af lýsingum knattspyrnuleikja. Hann var fyrsti íþróttafréttamaður Sjónvarpsins og framan af einn á þeim vettvangi. Hann starfaði svo sem fréttamaður á fréttastofu útvarpsins, en þetta vita blessuð börnin á fréttastofu Ríkisútvarpsins í dag auðvitað ekki. Alltaf er betra að afla sér upplýsinga áður en fullyrt er.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar