«

»

Molar um málfar og miðla 1520

Síðastliðinn nóvember sluppu nærri tvö hundruð fullvaxta laxar úr sláturkví … segir í DV bls. 4 (15.-17.07 2014). Klúðurslegt orðalag. Betra hefði verið; í nóvember síðastliðnum eða í nóvember í fyrra. Ekkert væri hinsvegar athugavert við að segja, – Síðastliðinn nóvember var kaldari en í meðal ári …  Og hvað eru fullvaxta laxar?

Fleira var athugavert í þessu tölublaðið DV. Í fyrirsögn á bls.17 segir: Garth Brooks gefur úrslitakost. Þetta er út í hött. Garth Brooks setur úrslitakosti, hefði átt að standa þarna. Í annarri  fyrirsögn í blaðinu, á bls. 18 er fjallað um fyrirhugaðan skipaskurð í gegn um Níkaragva. Þar segir: Þrisvar sinnum lengri en . Við lestur fréttarinnar kemur í ljós að þessi fyrirhugaði skurður á að vera þrisvar sinnum lengri en Panamaskurðurinn.

 

Í bílablaði  Morgunblaðsins (15.07.2017) segir um knattspyrnukappa sem gert hefur samning við bílaframleiðanda: Neymar er bundinn til að fara á æfingar í bíl frá VW fjölskyldunni. Varla þarf að binda manninn til þess að fá hann til að fara á æfingar á VW bíl ( frá VW fjölskyldunni!!!)? Átt er við að hann sé samningsbundinn eða skuldbundinn til að nota bíla frá VW þegar hann fer til æfinga.

 

Rafn vitnar í frétt á dv.is (11.007.2014) og segir : ,,Ætli „sjálfræði í peningamálum“ sé nokkuð skylt því, sem á íslenzku er kallað fjárræði?? (af vef DV) Sviptur sjálfræði í peningamálum„Ég kann ekkert á peninga“. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Málglöggur Molalesandi benti á þetta í textavarpi Ríkisútvarpsins (14.07.2014) :

,,Vinnuslys í Vaðlaheiðargöngum

Vinnuslys varð í Vaðlaheiðargöngum við Akureyri. Lögregla var kölluð út klukkan rétt rúmlega 17 að sögn lögreglumanns á Akureyri. Ekki er vitað hvers eðlis slysið varð en samkvæmt útkalli er einn maður slasaður.”

Hann spyr: ,,Hvað varð úr slysinu, og hver hann er þessi útkall?” Von er að spurt sé. Molaskrifari þakkar ábendinguna.

 

Lesandi benti á þetta á dv.is (15.07.2014): „Hvor þeirra mun sigra bardagann?“ er fyrirsögn á skoðanakönnun á DV.is. – Vesalings bardaginn. –  Rétt er að geta þess að eftir skamma stund var þessu breytt í: Hvor þeirra mun vinna bardagann? Einhver hefur rekið augun í augljósa amböguna. Batnandi mönnum er best að lifa.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>