«

»

Molar um málfar og miðla 1521

Úr frétt á mbl.is (16.07.2014): Kon­an var vistuð í fanga­geymslu vegna máls­ins sem og vegna ölv­un­ar­ástands. Vegna ölvunarástands? Var það ekki vegna ölvunar?

 

Í hádegisfréttum Bylgjunnar (16.07.2014) var sagt að fullorðið fólk hefði verið bjargað. Fullorðnu fólki var bjargað.

 

Lagt er til að Ríkisútvarpið freisti þess að ná samningum við norska sjónvarpið NRK um sýningarrétt á einhverju af því ágæta efni sem sýnt er í þættinum Hovedscenen á NRK2 á sunnudagskvöldum.

 

Úr frétt á mbl.is (16.07.2014); Ástæðuna fyr­ir því að málið miðar svo hægt áfram má rekja til deilna á milli full­trúaráðsins og öld­unga­deild­ar þings­ins.Hér hefði Molaskrifari fremur sagt: Ástæðuna fyrir því að málinu miðar svo hægt …. Málinu miðar áfram. Málið miðar ekki áfram. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/16/sendiherra_bidur_enn_stadfestingar/

 

Í sex fréttum Ríkisútvarps (17.07.2014) var sagt frá fjárdrætti. Ítrekað var talað um að draga sér fé. Molaskrifari þykist hafa heyrt þetta áður. Er ekki málvenja að tala um að draga sér fé, þegar einhver notfærir sér aðstöðu sína til að koma höndum yfir fé, sem hann ekki á?

 

Nær undantekningarlaust hefur tekist vel til þegar valdir hafa verið þulir til starfa við Ríkisútvarpið. Þar hefur þó nýlega orðið breyting á. Þar hefur komið að hljóðnemanum þulur, sem les með einkennilegri hrynjandi, óíslenskulegri. Molaskrifari veit, að hann er ekki einn um að finnast hvimleitt að hlýða á þennan lestur. Heyrir þetta enginn þeirra sem ráða í Efstaleiti? Samskonar amalestur heyrist stundum á Bylgjunni. Engin ástæða er til að apa það eftir. – Við þetta má svo bæta mjög undarlegri kynningu þessa sama þular á Rás eitt rétt fyrir klukkan 1800 á fimmtudagskvöldi (17.07.2014) á sumartónleikum evrópskra útvarpsstöðva frá Riga. Þar var þvælt um Latvíu, en Latvia er enska heitið á Lettlandi. Kynning umsjónarmanns í þættinum sjálfum var vönduð og til fyrirmyndar.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>