Í Molum fimmtudagsins (17.07.2014) var hér vikið að orðaklaginu ,,að draga að sér fé”. Molavin nefnir þetta einnig í bréfi til Molanna. Aldrei er góð vísa of oft kveðin. Molavin segir: „…aðstandendur þess hafa verið ákærðir fyrir að draga að sér fé...“ – svona las fréttakona RUV þetta í kvöldfréttum fimmtudagskvöld (17.7.14) og svona var það lesið aftur í tíufréttum. Og svona stendur það óbreytt á vefsíðu RUV. Það heitir að „draga sér fé“ og hefur verið bent á það áður hér í Molum, að mig minnir. Enginn les yfir fréttatexta, þulir endurtaka vitleysurnar hugsunarlaust og vefsíðustjórnin fylgist ekki með. Það er ekki von á góðu þegar haltur leiðir blindan.” Molaskrifari þakkar bréfið. Allt er þetta er þetta rétt.
KÞ vitnar (17.07.2014) í frétt á dv. is: ,,Hrannar Björn Arnarsson, aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur á síðasta kjörtímabili og núverandi framkvæmdastjóri Sósíaldemókrata í Norðlenska ráðinu, segir þessa yfirlýsingu forsetans hljóta að marka tímamót í þróun lýðræðis á vesturlöndum.” Hann spyr hvar hefur Norðlenska ráðið aðsetur ? Von er að spurt sé. Fréttabarnið sem þetta skrifaði hefur líklega aldrei heyrt minnst á Norðurlandaráð ! https://www.dv.is/frettir/2014/7/17/i-thessum-ordum-felst-ekki-adeins-valdhroki-heldur-byr-lika-i-theim-frae-einraedis/
Annar lesandi, SGS, vitnaði einnig í dv.is (17.07.2014) og segir: ,,Síðan hvenær þarf að taka fram að þotur sem hrapa úr 10 km hæð séu gjörónýtar? Og segja í sömu setningu, en á eftir að allir séu látnir. Kjánalegt og barnalegt.”
„Vél Malaysian Airlines, sem hrapaði yfir Úkraínu í dag og er sögð hafa verið skotin niður yfir átakasvæði í Úkraínu, er gjörónýt og allir farþegar og áhafnarmeðlimir eru sagðir látnir“. Satt er það. Hér hefur enn eitt fréttabarnið verið eftirlitslaust við lyklaborð og tölvuskjá.
Í Molum (1521) fyrir helgi var vikið að vondum þularlestri í Ríkisútvarpinu. Það er sem betur fer algjör undantekning. Á laugardagsmorgni (19.07.2014) var Anna Sigríður Einarsdóttir þulur á Rás eitt í Ríkisútvarpinu. Hún hefur einstaklega þægilega rödd og viðfelldna. Það var gott að hlusta á hana. Óaðfinnanlegt. Þannig eiga þulir að vera.
Heyra ráðamenn í Ríkisútvarpinu ekki þegar þulartexti er illa fluttur, óáheyrilegur, lætur illa í eyrum ? Engu líkara.
Af forsíðu visir.is (18.07.2014): Kona frá Ástralíu hefur missti bróðir sinn í hvarfi MH 370 í suður Indlandshafi og stjúpdóttir í MH 17 sem skotin var niður yfir Úkraínu í gær. Rétt beyging orðanna bróðir og systir virðist þeim sem þetta skrifaði algjörlega ókunn, – fyrir nú utan annað. Svo koma fjölskyldumeðlimir einnig við sögu í fréttinni.
Í hádegisfréttum Bylgjunnar (18.07.2014) var sagt frá fólskulegri líkamsárás á karlmanni. Hefði átt að vera , líkamsárás á karlmann.
Jón Hákon Magnússon, framkvæmdastjóri og fyrrverandi fréttamaður lést í Reykjavík föstudaginn 18. júlí , 72 ára að aldri, eftir stutta baráttu við illvígan sjúkdóm. Sá sem þetta skrifar naut vináttu Jóns í hálfa öld. Í átta ár vorum við vaktfélagar á fréttastofu Sjónvarpsins. Jón sinnti mest erlendum fréttum á sjónvarpsárunum. Á því sviði bjó hann yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu. Ekki síst var hann fróður um bandarísk stjórnmál. Hann skrifaði óteljandi greinar og fréttir frá Íslandi í erlend blöð og tímarit og stjórnaði sjónvarpsþáttum um erlend málefni. Hann kom víða við og stofnaði ásamt Áslaugu Guðrúnu konu sinni fyrirtækið Kynningu og markað, KOM, sem var brautryðjandi á sínu svið og naut trausts og virðingar.
Jón Hákon Magnússon var drengur góður og sannur vinur. Hann var vandaður fagmaður sem kunni sitt starf og sinnti því af heiðarleika og trúmennsku. Molaskrifari saknar nú vinar í stað. Það gera margir. Far þú vel, góði vin.
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar