Glöggur lesandi vakti athygli Molaskrifara á grein sem Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðarráðherra skrifaði í Fréttablaðið (14.07.2014)
Greinin heitir Aukið samráð og fleiri valkostir og er hið mesta torf. Í tveimur málsgreinum, þeirri þriðju og fjórðu, sem eru samtals tólf línur í útprentun er orðið samráð notaðsjö sinnum, – átta sinnum ef talið er líka orðið samráðsferli. Samráð kom reyndar líka fyrir í tveimur fyrstu málsgreinunum. Fyrr má nú aldeilis vera orðgnóttin. Raunar hallast Molaskrifari að því að einhver hjálparkokkur hafi skrifað þessa grein í nafni ráðherrans. Eins gæti höfundur verið hagsmunaaðili. Greinin er þannig skrifuð. Gæti næstum komið beint frá Landsneti.
http://www.visir.is/aukid-samrad-og-fleiri-valkostir/article/2014707149999
Molalesandi benti á eftirfarandi á mbl.is (19.07.2014)
http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/07/19/kofnudu_utfra_eiturgufum/
TH spyr:: ,,Hvað eru eiginlega margar villur í þessari grein?
Hún er greinilega þýdd úr ensku, en þýðandinn virðist ekkert hafa hugsað áður en hann byrjaði verk sitt, ekkert hugsað meðan á því stóð og heldur ekkert hugsað þegar því lauk. Það hlýtur að teljast lágmarkskrafa að þýðendur hafi það tungumál, sem þýtt er yfir á, á valdi sínu.” Molaskrifari segir eins og er. Hann gafst við að telja villurnar. Enn kemur í ljós að bögubósar skrifa og og skrifin eru síðan birt athugasemda- og eftirlitslaust. Allan metnað til að vanda sig virðist skorta.
Ég held að þessi árangur megi þakka, sagði Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins í hádegisfréttum Ríkisútvarps á laugardag ((19.07.2014) . Ég held að þennan árangur megi þakka …. hefði þingmaðurinn átt að segja.
Á mbl.is /19.07.2014) er viðtal við unga stúlku, sem er að safna sér fyrir skólagjöldum við bandarískan háskóla. Í viðtalinu segir: Þar mun Eygló stunda nám við tónlistarþerapíu. Hvað á blaðamaðurinn við? Þetta orðalag er tvítekið í viðtalinu. Er ekki átt við að stúlkan ætli að stunda nám í tónlistartherapíu? Hún ætli að læra tónlistarþerapíu? Einkennilegt orðalag.
Vinir og kunningjar Molaskrifara, sem hlusta svolítið á Útvarp Sögu hafa bent honum á, að útvarpsstjóri og stjórnarformaður þess fyrirtækis hafi að undanförnu gert sér far um að tala illa um og hnjóða í Eið Svanberg Guðnason. Einkum fyrir að sýna Ólafi Ragnari Grímssyni ekki tilhlýðilega lotningu. Verra þætti Molaskrifaraef þau Arnþrúður og Pétur töluðu vel um Eið Svanberg Guðnason. Það væri satt best að segja verulegt áhyggjuefni. En ef það veitir þeim skötuhjúum andlega fullnægingu að tala illa um þann sem þetta skrifar, – þá verði þeim að góðu !
Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.
Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG
Skildu eftir svar