«

»

Molar um málfar og miðla 1524

Molavin skrifaði: ,,Fréttamennskan á RUV rís ekki hátt þessa dagana. Á netsíðu þess stendur nú (21.7.14): „Töluverð fækkun hefur verið meðal bandaríkjamanna sem greinast með HIV-veiruna. Hlutfall þeirra sem greindust féll úr rúmlega 24  prósentum í rúm 16%.“ Ef leitað er í heimild á bak við fréttina er átt við 16 af hverjum 100.000. Er þetta ónákvæmni eða vanþekking – eða jafnvel alger vanþekking á prósentureikningi? Alla vega er ekkert fylgst með sumarbörnunum.” Molaskrifari þakkar ábendinguna og bætir við: Ótrúlega óvönduð vinnubrögð. Gæðaeftirlit með því sem borið er á borð fyrir þjóðina er ekki til staðar.

 

KÞ skrifaði Molum (22.07.2014) ,,Einkennileg setning í frétt á mbl.is ( http://www.mbl.is/frettir/erlent/2014/07/21/99_olvadir_flugmenn_stodvadir/ )

„Reglu­lega þurfa áhafn­ar­meðlim­ir að gang­ast und­ir handa­hófs­kennda ör­ygg­is­skoðun … “

Er skoðunin regluleg eða handahófskennd?!” Eðlilegt að spurt sé! Og enn koma áhafnarmeðlimir við sögu !

 

Í hádegisfréttum Ríkisútvarps á sunnudag (20.07.2014) var sagt: Lík 169 þarþega hefur verið komið fyrir í lestarvögnum nálægt

Þetta er óvandað, rangt orðalag. Líkum 169 farþegar hefur verið komið fyrir … Gæðaeftirliti er ábótavant eins og fyrri daginn. Enginn les yfir.

 

Í fréttum Ríkisútvarps þennan sama sunnudag var talað að Íslendingar ættu að slíta stjórnmálasamstarfi við Ísrael (tvisvar heyrði Molaskrifari það) og einu sinni var sagt að við ættum að slíta stjórnarsamstarfi við Ísrael. Sú aðgerð sem verið var að ræða um hefur í áratugi heitið á íslensku að slíta stjórnmálasambandi við.

 

Sumir fréttamenn Ríkisútvarpsins kalla stofnunina ævinlega rúff, aðrir segja rúv. Hvaðan kemur þetta rúff ? Hvar er nú margumræddur málfarsráðunautur? Er ekki hægt að hafa samræmi í vitleysunni. ,,System í galskabet” eins og Danir segja.

 

,,…. sem skotin var niður af eldflaug.” Þannig var til orða tekið í fréttum Stöðvar tvö á mánudagskvöld (21.07.2014). Klúðurslegt orðalag. Þarna hefði t.d. mátt segja, –  sem grandað var með eldflaug, eða –  sem skotin var niður með eldflaug, sem eldflaug grandaði.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>