«

»

Molar um málfar og miðla 1525

 

Á bls. 2 í DV (22.07-25.07.2014) segi :,, Ef hann hefði ekki farið í þessa aðgerð til að fjarlægja höfuðkúpuna þá hefði hann bara dáið.” Svo er látið líta út sem þetta sé tilvitnun í frétt, tekið úr frétt á síðunni.  Svo er ekki. Fjarlægja höfuðkúpuna?  Ekkert eftirlit. Ekkert aðhald. Í fréttinni er  talað um ,, …að fjarlægja hluta höfuðkúpu hans til að létt á bólgum”. Þau eru víða fréttabörnin nú um stundir.

 

Af fréttavef Ríkisútvarpsins (21.07.2014): ,, Formaður knattspyrnudeildar Sindra segir að félagið líti mjög alvarlegum augum á mál liðsmanns félagsins sem lenti saman við leikmann Snæfellsness í fótboltaleik í gær.” Málvenja er að tala um að líta eitthvað alvarlegum augum , ekki líta alvarlegum augum á eitthvað. Ekki von  til að  óvanir  viti þetta, enda lítið um leiðbeinendur og málfarsráðunautur fjarri góðu gamni. Eftir fréttum að dæma  lenti liðsmanni  félagsins ekki saman við við leikmann, eins og þarna segir. Hann réðist á leikmanninn.

 

Að okkur skyldi hafa haldist þannig á málum, sagði fjármálaráðherra í fréttum Ríkissjónvarps á þriðjudagskvöld (22.07.2014). Að við skyldum hafa haldið þannig á málum, hefði ef til vill verið betra orðalag.

 

Í síðdegisfréttum Ríkisútvarps á miðvikudag (23.07.2014) var talað um að framkvæma handtöku. Hvað er að því að nota sögnina að handtaka? Ekkert.

 

Er það missýning Molaskrifara að í  kaffiauglýsingu BKI í Ríkissjónvarpinu  sé íslenski fáninn í hálfa stöng?  Hlýtur að vera missýning.

 

Aftur og aftur sýna  sjónvarpsstöðvarnar ÍNN og N4 okkur að hægt er að bjóða áhorfendum prýðilegt íslenskt efni án mikils  tilkostnaðar. Ríkissjónvarpið getur ýmislegt af báðum stöðvum lært.

 

Hvar væri blessað Ríkissjónvarpið ef ekki væri sá breski David Attenborough með allar þær  dýramyndir sem hann gerir fyrir  BBC?   Hann er vissulega góður og oft frábær, en  eins og þar stendur , –  of mikið af öllu má þó gera.

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>