«

»

Molar um málfar og miðla 1526

 

Ríkissjónvarpið okkar er greinilega komið í harða læknasápusamkeppni við Stöð tvö. Sýnir læknasápu á sömu dögum, nánast á sama tíma, – efnislega er þetta kynnt sem vinsæl þáttaröð um líf og störf skurðlækna sem berjast fyrir lífi sjúklinga sinna. Um það er ekki að deila að þetta er auðvitað mikill menningarauki. En er það svona Ríkissjónvarp sem við viljum?

 

Í fréttum Stöðvar tvö (23.07.2014) var sagt að tvær Herkúles herflugvélar hefðu flutt lík látinna frá Úkraínu til Eindhoven í Hollandi. Myndirnar sem sýndar voru með fréttinni báru það með sér að þetta var rangt. Hollenska vélin var af gerðinni Herkúles C-130, fjögurra hreyfla skrúfuþota. Ástralska vélin var fjögurra hreyfla þota af gerðinni Boeing C-17. Óþörf villa.

 

Í fréttum Ríkissjónvarps (23.07.2014) um berghlaupið eða skriðuna sem hljóp fram í Öskjuvatn var sagt: … myndin var tekin af landvörðum.

Þurfti að beita afli? Þetta er óþörf og vond þolmyndarnotkun. Germynd er alltaf betri. Landverðir tóku myndina. Í sama fréttatíma var sagt að stjórnvöld í Ísrael hefðu staðfest afhendingu bréfs frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Hefði ekki verið eðlilegra að segja að stjórnvöld hefðu staðfest móttöku bréfsins, staðfest að hafa tekið við bréfinu?

 

Það er engu líka en blessað Ríkissjónvarpið líti á það sem skyldu sína að bjóða okkur upp á bíómyndir af botni ruslakassans um helgar á þessum árstíma. Molaskrifari skoðaði einkunnir, sem þrjár kvikmyndir fá á IMDb, sem sýndar verða um helgina: Ekki glæsilegt, 5,2, 5,3 og 6,3. Það er hægt að gera miklu betur en þetta, – ef vilji er fyrir hendi.

 

Þjófurinn fór í gegnum rúðuna, segir í frétt á mbl.is (24.07.2014) af ,,pínulitlum þjófi” í Reykholti: ,, Litl­ar skemmd­ir urðu á hús­næði versl­un­ar­inn­ar en talið er að þjóf­ur­inn hafi verið smá­vax­inn þar sem hann hef­ur laumað sér inn í versl­un­ina í gegn­um minnstu rúðu henn­ar.” http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/24/pinulitill_thjofur_i_honnubud/

Þetta er eiginlega ,,pínulítil” frétt , eða þannig.

 

Ekki fór Ingvi Hrafn Jónsson sjónvarpsstjóri ÍNN fögrum orðum um framgöngu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði í sjónvarpi sínu í gærkveldi (24.07.2014). Hann líkti framgöngu Ríkisútvarpsins á þeim vettvangi við framferði Ísraelsmanna gegn Palestínumönnum!

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>