«

»

Molar um málfar og miðla 1527

Molum barst eftirfarandi ágæt hugleiðing frá jt:

,,Til eða frá. Stundum má sjá og heyra í fréttum af vegamálum að vegur liggi frá A til B. Betur færi að segja að vegur liggur milli A og B. Yfirleitt er nefnilega hægt að komast í báðar áttir á vegum og götum – nema þar sem er einstefna – og reyndar var Gæsavatnaleið norðan Vatnajökuls lengst af aðeins fær til austurs vegna langrar sandbrekku sem ógjörningur var að aka upp og til vesturs. En yfirleitt liggja vegir sem sagt á milli sveita og byggða.

Meira um samgöngumál. Vegir eða götur, vegamót eða gatnamót. Yfirleitt er talað um vegi um landið, vegi sem tengja byggðir og jarðir. Götur eru hins vegar yfirleitt í þorpum og bæjum og þar af leiðandi eru vegamót yfirleitt úti á landsbyggðinni en gatnamót í þéttbýli. Þess vegna er óeðlilegt að segja til dæmis gatnamót Hringvegar og Landvegar, þar eru hins vegar vegamót. Enda heitir Vegagerðin Vegagerð!

Endanleg ákvörðun – þetta orðalag heyrist oft. Er komin ákvörðun í máli ef hún er ekki endanleg? Menn eru að fjalla um mál og fréttamenn spyrja hvenær niðurstaða liggi fyrir. Þá er oft svarað að endanleg ákvörðun verði tekin á morgun eða hinn. Hvaða ákvörðun er þá tekin fyrst? Kannski bráðabirgðaákvörðun? Ég held að þetta sé einn af þessum hugsunarlausu málkækjum sem eru alltof ríkjandi.

Spurning um þróun í málinu: Er eftirfarandi eðlileg notkun á bandstriki eða tengingu: Samgönguframkvæmdir og –verkefni, fjarskiptakerfi og –þjónusta? Mér finnst æ oftar bera á þessari notkun bandstriksins; yfirleitt hefur strikið verið hengt á fyrra orðið til að spara endurtekningu: Gatna- og vegaframkvæmdir, tré- og járnsmíði, mennta- og menningarmálaráðuneyti. Er þetta æskileg þróun eða á sporna gegn henni?

Tíminn skiptir máli. Enn má minnast á þann ósið að ,,íslenska“ alltaf tímasetningar þegar greint er frá atburðum erlendis. Sagt er að eitthvað hafi gerst klukkan þetta eða hitt að íslenskum tíma. Þetta er til dæmis algengt er í fréttum frá Bandaríkjunum sem sagðar eru í morgun- eða hádegisfréttatímum. Þar virðast atburðir yfirleitt gerast að næturlagi – að íslenskum tíma. Þá er yfirleitt kvöld þar vestra og miklu réttara að segja: í gærkvöld. Það sem getur skipt máli fyrir samhengi fréttar um atburð erlendis er að vita hvað klukkan var þar sem atburðurinn gerðist, staðartíminn. Það má svo sem fylgja hvað klukkan hafi verið hjá okkur en það er algjört aukaatriði.”

 

Molaskrifari þakkar þessa ágætu hugleiðingu og þarfar ábendingar. Sammála í einu og öllu. Rétt er að bandstriksnotkun sem bent er á, er röng og illskiljanleg. Kærar þakkir, jt.

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

3 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Kærar þakkir, Egill. Ég vona að þeir sem málið er skylt, lesi þetta! En sennilega er það borin von.

  2. Egill Þorfinnsson skrifar:

    Sæll Eiður
    Mér hefur oft dottið í hug að benda ritstjórum blaða eins og Fréttablaðsins, DV og einnig vefmiðla að þeir ættu að gera fréttaskrifurum sínum skylt að lesa Mola þína. Ég held að mörgum þeirra yrði brugðið ef þeir settust niður og gæfu sér smá tíma til að lesa yfir það sem þeir væru að senda frá sér. Ég held að örlítil hugsun samhliða örlítilli vitglóru yrði til þess að margar fréttir yrðu endurskrifaðar. Það er ekki nóg með það að menn geti sent frá sér glórulausa texa þá er það vaxandi vandamál eins og þú hefur oft bent réttilega á að vanþekking þessara manna á staðreyndum og atburðum tengdum mankynssögunni er æði lítil. Ég hef t.d í nokkur ár safnað saman dálkum sem birtast í Frettablaðinum þar sem greint er frá merkum atburðum og tímasetningu þeirra. Það er ekki heil brú í þessu stundum vitleysan er þvílík. Það er draumurinn að birtast einn daginn í gættinni hjá Ólafi Stephensen með þessa samantekt ásamt vel völdum köflum úr Molum þínum. Ég efast ekki um að manninum yrði brugðið.
    Kv, Egill Þorfinnsson
    P.S Þú hefur kannski tekið eftir að ég vil helst ekki nota orðið blaðamaður lengur því ég held að fjöldinn allur sem starfar á þessum miðlum hafi ekki þá menntun. Ég sótti um starf hjá Morgunblaðinu fyrir um 25 árum síðan. Þá þurfti að taka próf í íslensku og þýða úr ensku og dönsku yfir á íslensku valda texta úr enskum og dönskum fjölmiðlum. Ætli einhver starfsmanna ofangreindra fjölmiðla kæmist í gegnum það í dag.
    Eiður, án gamans. ég held ekki.

  3. Haukur Kristinsson skrifar:

    Það sést margt verra á prenti en “ endanleg ákvörðun“. Hér gætu verið áhrif frá ensku, „final decision“. Ég mundi frekar segja lokaákvörðun.

    Hvað finnst ykkur?

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>