«

»

Molar um málfar og miðla 1528

Í fréttayfirliti og fyrstu frétt í hádegisfréttum Bylgjunnar á laugardag (26.07.2014) talaði fréttaþulur/fréttamaður um hæstlaunuðustu (skattgreiðendur). Hæstlaunuðu hefði dugað. Sami fréttamaður las frétt um makrílveiðar og sagði: ,,.. þegar veiðarnar ná hámæli”. Ná hámarki átt hann sjálfsagt við.  Ef eitthvað kemst í hámæli, er það altalað, eitthvað sem allir vita. Fleiri hnökrar voru á lestrinum. Enginn fullorðinn á vaktinni?

Molavin tók eftir þessu líka. Hann skrifaði Molum (26.07.2014) ,,Það eru kannski sumarbörn í afleysingum, sem eiga bróðurpartinn af málvillum í fréttum Bylgjunnar en þar koma líka vanari fréttamenn til sögu. Það var nánast engin frétt villulaus í hádegisfréttum í dag, laugardag, og byrjað á því að tala ítrekað um „hæst launuðustu“ skattgreiðendur. Hátt launaður – hærra launaður – hæst launaður. Einnig var talað um að markrílveiðar kæmust brátt í hámæli (næðu hámarki). Vonandi tekur nýskipaður útgefandi 365 miðla á þessum vanda, sem er slíkur að hann rýrir trúverðugleika fréttastofunnar.” Molaskrifari þakkar bréfið.

 

Á forsíðu helgarblaðs Fréttatímans (25.-27.07.2014) segir:,,Hann flutti tíu ára til Danmerkur með móður sinni, Sigrúnu Davíðsdóttur fréttamanns, en heldur tengsl við systkini sín hér, …” Hann flutti með móður sinni , Sigrúnu Davíðsdóttur fréttamanni en heldur tengslum við systkini sín … Fleiri áberandi villur eru í blaðinu meðal annars í fyrirsögn á bls. 7 í SÁA blaðinu sem er lagt inn í Fréttatímann. Þar segir: ,,Ríkið borgar skimum fyrir alla aðra en sjúklinga á Vogi” á vera skimun, ekki skimum.

 

Af visir.is (25.07.2014) . Ósköp er dapurlegt að lesa aftur og aftur að fréttabörn skuli halda að til sé í íslensku sögnin að olla. ,,Slökkt var á útsendingunni á þeim forsendum að hún gæti ollið „pólitískum ágreiningi“.” Gætið valdið.

http://www.visir.is/utvarpsfrett-med-nofnum-latinna-palestinskra-barna-ritskodud/article/2014140729316

Raunar er margt fleira athugavert við þessa stuttu frétt, sem ýmsir hafa orðið til að benda á . Hér er tvennt: ,,…en það kom fyrir ekkert undir lok.” Undir hvaða lok? Og svo þetta: ,, … og biðja um að banninu verði lyft og þau geti haldið áfram útsendingum sínum.” Lyfta banninu? Væntanlega er hér átt við að aflétta banninu. Afnema bannið.

 

Jón greiðir hæstu skattana er afar innihaldsrík og ákaflega upplýsandi fyrirsögn á mbl.is (25.07.2014) http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/25/jon_greidir_haestu_skattana/

 

Fyrirvari: Athugasemdir frá öðrum á þessari síðu eru á þeirra ábyrgð.

Síðuskrifari áskilur sér rétt til að fjarlægja dónaleg eða meiðandi ummæli, nafnlausar athugasemdir eða athugasemdir undir dulnefni. Lesendabréf eru vel þegin. Bréfritarar eru beðnir að taka fram hvort birta megi bréf, eða ábendingar þeirra, undir nafni, – ESG

 

 

2 athugasemdir

Ekkert ping ennþá

  1. Eiður skrifar:

    Íþróttadeildin ræður ríkjum í Ríkissjónvarpinu. Vandvirknin ræður ekki alltaf ríkjum í íþróttadeildinni.

  2. Kristján skrifar:

    Sá sem fær hæstu launin er launahæstur.

    Í gær voru fimm lokaholur á Íslandsmótinu í golfi í beinni útsendingu á RÚV. Í síðasta ráshóp kvenna voru Ólafía Þórunn, Guðrún Brá og Valdís Þóra. Í loka ráshóp karla voru Birgir Leifur, Þórður Rafn og Axel. Þeir sem lýstu golfinu áttu í mesta basli með fallbeygingar á flestum ef ekki öllum þessum nöfnum og var þetta orðið hálfgert skemmtiatriði.

    Fyrir utan óteljandi málvillur, virtist lýsandi frá RÚV og þeir sem stjórnuðu útsendingu vera út á þekju. Ítrekað var farið rangt með höggafjölda, sætaröð, og á hvaða braut menn voru staddir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt mun ekki sjást.

Þú mátt nota þetta HTML tags og attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>